Fara í efni  

Fulltrúaráð Grundartangahafnar (2002-2004)

4. fundur 18. desember 2003 kl. 11:00 - 12:20

 

Fundur fulltrúaráðs Grundartangahafnar, fimmtudaginn 18. desember kl. 11:00, haldinn í stjórnsýsluhúsinu á Akranesi, Stillholti 16-18.


Mættir:
 Sigurður Sverrir Jónsson,
 Gunnar Sigurðsson,
 Sigurður Valgeirsson,
 Ásbjörn Sigurgeirsson,
 Guðni Tryggvason.
 Gísli Gíslason,
Guðmundur Eiríksson,
Guðmundur Vésteinsson,
Eiður Ólafsson,
Guiðmundur Páll Jónsson,
Ingi Tryggvason,
Jón S. Stefánsson,
Davíð Pétursson,
Marinó Tryggvason,
Stefán G. Ármannsson,
Hjördís Stefánsdóttir.


Gunnar Sigurðsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna.


Dagskrá:


1.  Skýrsla um starfsemi hafnarinnar.
 Frá því að haldinn var fundur í fulltrúaráði Grundartangahafnar þann 9. maí s.l. hefur stjórn hafnarinnar unnið áfram að þeim verkefnum sem þá var gerð grein fyrir auk þess sem unnið hefur verið að nýjum verkefnum.  Hér á eftir er gerð grein fyrir því helsta sem ástæða er til að geta sérstaklega:


Klafastaðir.
Á fyrri hluta ársins var gert samkomulag við Guðmund Sigvaldason um að jörðin Klafastaðir yrði metin af óvilhöllum matsmönnum og í framhaldi af því yrði reynt til þrautar að ná samningum um kaup Grundartangahafnar á jörðinni.  Niðurstaða matsmannanna lá fyrir í septembermánuði og var þá gengið til samninga um endanlegt kaupverð og náðust samningar í októbermánuði og var gengið frá afsali í nóvembermánuði.  Stjórnin hefur sent hreppsnefnd Skilmannahrepps erindi þar sem farið er fram á að hreppurinn kaupi hluta jarðarinnar, en formlegt svar þar að lútandi hefur ekki borist.
Nú þegar höfnin er orðin eigandi jarðarinnar liggur fyrir að huga að því að gera tillögu um nýtingu landsins og deiliskipulagningu þess í samvinnu við sveitarstjórn Skilmannahrepps.  Stjórn hafnarinnar hyggst skipa þriggja manna nefnd sem haldi utan um framgang málsins, en í nefndinni verði hafnarstjóri, einn fulltrúi Skilmannahrepps auk þess sem Guðmundur Eiríksson vinni með nefndinni.


Hafnarvernd.
Hinn 1. júlí árið 2004 taka gildi nýjar reglur um hafnarvernd.  Í reglunum felst m.a. að vinna skal samkvæmt ákveðnu öryggiskerfi vegna skipa sem koma til hafnarinnar.  Ljóst er að sá tími sem ætlaður er til undirbúnings og innleiðingar reglnanna er afar stuttur og að nokkur kostnaður fylgir því að koma þessu regluverki á laggirnar.  Í samvinnu við Akraneshöfn hefur verið leitað til Hönnunar hf. um gerð svonefnds áhættumats og verndaráætlunar og er gert ráð fyrir því að sá þáttur málsins liggi fyrir í upphafi árs 2004.  Í framhaldi af því þarf að koma til framkvæmda þeim tillögum sem tillaga er gerð um en Siglingastofnun þarf að staðfesta að þær aðgerðir séu nægjanlegar samkvæmt þeim reglum sem um þetta gilda.


Fyrirkomulag rekstrar hafnarinnar.
Í októbermánuði samþykkti stjórn Grundartangahafnar eftirfarandi: ?Á liðnum misserum hefur rekstrarumhverfi Grundartangahafnar breyst og aukist.  Ljóst er að framundan eru stór verkefni og auknar skyldur sem bregðast þarf við, svo sem stækkun hafnarinnar, innleiðing reglugerðar um hafnavernd, skipulagning hafnarsvæðisins m.a. vegna kaupa á Klafastöðum og fleira.  Framangreint kallar á breytingar á rekstri Grundartangahafnar sem miði að því að skerpa áherslur varðandi daglegan rekstur hafnarinnar annars vegar og uppbyggingu hennar hins vegar.  Til þess að ná þeim markmiðum og til að auka sjálfstæði hafnarinnar þykir hafnarstjórn rétt að segja upp samningi hafnarinnar við Klafa og Akraneshöfn, en felur hafnarstjóra að leita eftir samningum við Akraneskaupstað og Akraneshöfn um yfirstjórn, fjárreiður og bókhald hafnarinnar og við Klafa um afgreiðslu skipa.  Hafnarstjórn samþykkir einnig að fela hafnarstjóra að leita eftir samningi við Endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar lögg. endurskoðanda um að annast endurskoðun reikninga hafnarinnar og það fjárhagslega eftirlit sem því fylgir.  Þá samþykkir stjórnin að fela hafnarstjóra að leita eftir aðila um vinnu við ákveðin verkefni við höfnina svo sem umsýslu viðhaldsverkefna, undirbúning að stækkun hafnarinnar, framtíðarskipulag hafnarsvæðisins, reglum um hafnarvernd o.fl.?

Á grundvelli þessa var ákveðið að segja upp samningi við Klafa og Akraneshöfn um rekstur Grundartangahafnar og fól jafnframt hafnarstjóra að ganga til samninga við nokkra aðila um breytt fyrirkomulag.  Í bókun stjórnar Grundartangahafnar frá  22. október er gerð grein fyrir ástæðum þessara breytinga en bókunin er svohljóðandi:


Á fundi nú  í desember voru síðan nýir samningar samþykktir í stjórninni og felst eftirfarandi í þeim:

1. Gerður hefur verið samningur við Endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar lögg. endurskoðanda um endurskoðun reikninga Grundartangahafnar og það fjárhagslegt eftirlit sem því fylgir.

2. Samið hefur verið við Klafa hf. um afgreiðslu skipa sem koma til Grundartangahafnar og ýmis önnur verkefni því tengd.

3. Samið hefur verið við Guðmund Eiríksson, verkfræðing, um framkvæmd ýmissa verkefna fyrir Grundartangahöfn.  Þar á meðal má nefna könnun á möguleikum á öflun vatns á svæðið, undirbúning að deiliskipulagi Klafastaða, sem höfnin hefur keypt, undirbúning að stækkun Grundartangahafnar, undirbúning og eftirlit með stærri viðhaldsverkefnum o.fl.

4. Samið hefur verið við Akraneshöfn og Akraneskaupstað um daglega yfirstjórn hafnarinnar, fjárreiður og bókhald. 

Með þessu telur stjórn hafnarinnar að verið sé að gera starfsemi hafnarinnar skilvirkari miðað við umfang hennar og þá skipaumferð sem um höfnina fer.  Samningarnir eru til ársloka 2005, en framlengjast eftir það um eitt ár í senn verði þeim ekki sagt upp.


Stækkun Grundartangahafnar.
Áfram hefur verið unnið að undirbúningi að stækkun Grundartangahafnar.  Siglingastofnun mun annast hina eiginlegu hönnunarvinnu en Guðmundur Eiríksson verður tengiliður við stofnunina og eftirlitsaðili.  Gera má ráð fyrir því að hönnun ljúki um mitt ár 2004 og að unnt verði að huga að framkvæmdum í framhaldi af því ef ákvörðun Norðuráls um stækkun álversins liggur þá fyrir.

 

Rafskautaverskmiðja.
Um þessar mundir er unnið að umhverfismati fyrir rafskautaverksmiðju í landi Kataness.  Undirbúningur deiliskipulags Hvalfjarðarstrandarhrepps er langt kominn og þeir aðilar sem hyggjast standa að verkefninu eru mjög áhugasamir um framgang þess auk þess sem ríkisstjórnin hefur veitt fjármunum til undirbúnings málsins.  Málið ætti að skýrast þegar líður á árið 2004.


Tilraunaborun eftir heitu vatni í landi Klafastaða.
Orkuveita Reykjavíkur hefur leitað eftir því að fá heimild til að bora tilraunaholu í því skyni að kanna hvort heitt vatn sé að finna í landi Klafastaða.  Stjórn Grundartangahafnar hefur samþykkt erindið og er nú unnið að undirbúningi málsins m.a. með gerð samnings um verkefnið.


Gjaldskrá Grundartangahafnar.
Þann 1. júlí s.l. tóku gildi ný hafnalög.  M.a. var af því tilefni gefin út nú viðmiðunargjaldskrá sem gildir til 1. júlí 2004, en þá verður ákvörðun gjaldskrár alfarið í höndum hafnarstjórna.  Stjórn Grundartangahafnar setti nýja gjaldskrá á grundvelli laganna og þeirrar viðmiðunargjaldskrár sem ráðuneytið gaf út.  Í þeim samningum sem gilda milli Grunartangahafnar annars vegar og Norðuráls og Islenska Járnblendifélagsins hins vegar er gert ráð fyrir ákveðnum kjörum fyrirtækjanna sem miða við frávik frá samræmdri gjaldskrá samgönguráðuneytisins.  Nú er ljóst að miðað við þær breytingar sem verða þann 1. júlí þá er eðlilegt að taka upp viðræður við fyrirtækin um breytt ákvæði hafnasamninganna og ef til vill fleiri atriði.  Það mál hefur verið rætt við Jón Sveinsson hrl. sem hefur verið ráðgjafi stjórnarinnar hvað þessi mál varðar.


Ný vegtenging á iðnaðarsvæðið.
Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að því að koma til framkvæmda hugmyndum um nýja vegtengingu frá þjóðvegi 1 niður á iðnaðarsvæðið á Grundartanga.  Nú hefur framkvæmdin verið boðin út og tilboð opnuð, en framkvæmdir munu þó ekki hefjast fyrr en gengið hefur verið frá samþykkt á breytingu á svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi.  Svæðisskipulags- og aðalskipulagsbreyting er nú til meðferðar og ætti þeim ferli að ljúka fljótlega en þá á eftir að ganga frá meðferð deiliskipulagsins, en framkvæmdir ættu því að geta hafist í byrjun árs 2004.


Vatnsmál.
Um nokkurt skeið hefur verið rætt um vatnsveitumál á Grundartanga.  Norðurál og Íslenska Járnblendifélagið reka sameiginlega vatnsveitu sem sér fyrirtækjunum fyrir vatni auk þess sem samningur er um að höfnin fái vatn úr þeirri vatnsveitu vegna þeirra skipa sem til hafnarinnar koma.  Ljóst er að ný verksmiðja í landi Kataness þarf verulegt vatn (c.a. 25.000 tonn á ári) og nýjar byggingar í landi Kataness og Klafastaða munu tæplega verða að veruleika nema unnt sé að útvega nægjanlegt vatn á svæðið. Skilmannahreppur og Hvalfjarðarstrandarhreppur hafa sent Orkuveitu Reykjavíkur erindi um mögulega aðkomu orkuveitunnar að þesum málum, en brýnt er að koma þeim í þann farveg að skipulega sé unnið að lausn málsins.  Líta verður svo á að uppbygging og rekstur vatnsveitna sé samkvæmt lögum fyrst og fremst hlutverk sveitarfélaga eða fyrirtækja á þeirra vegum.  Verður því að treysta því að Hvalfjarðarstrandarhreppur og Skilmannahreppur leiði mál þetta, en Guðmundur Eiríksson mun fyrir hönd hafnarinnar annast umsjón málsins og mun hann fylgja málinu eftir fyrir hönd stjórnar Grundartangahafnar í því skyni að tryggja að heildarlausn finnist svo unnt verði að markaðssetja svæðið á Grundartanga fyrir almenna iðnaðarstarfsemi.


Stjórnskipulag og rekstrarform Grundartangahafnar.
Björn Líndal hdl. hefur verið fenginn til að skoða þá möguleika sem eru varðandi rekstrarform Grundartangahafnar og stjórnskipulag.  Álit hans er nú til skoðunar hjá stjórn hafnarinnar, en ljóst er að gera þarf breytingar á reglugerð hafnarinnar að fengnu samþykki allra eignaraðila.  Í áliti Björns kemur m.a. fram að ekki sé tímabært að stofna hlutafélag um rekstur hafnarinnar og vegur þar þyngst að við slíkt myndi eigna- og tekjuskattur leggjast á höfnina auk þess sem ekki yrði unnt að fara í fjármögnun á stækkun hafnarinnar með lánum sem væru með ábyrgð eigenda hennar.  Því er ljóst að finna þarf annan flöt á rekstrarforminu þar til þessir vankantar hafnalaganna verða lagfærðir.  Mun stjórnin fjalla frekar um málið á fundum sínum á næstunni.

Guðmundur Páll fór yfir þau verkefni sem fyrirsjáanleg væru í framtíðinni, ræddi kaup á landi Klafastaða, vatnsmál og fleira auk þess sem hann hvatti til þess að fundað yrði með hreppsnefndunum um málefni svæðisins.
Marinó gerði grein fyrir fyrri tilraunum til kaupa á landi Klafastaða.


2.  Áætlun um tekjur og gjöld hafnarsjóðs á árinu 2004. 

Hafnarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætlun hafnarinnar fyrir árið 2004 og samþykkti
fulltrúaráðið hana.

 

3. Árshlutauppgjör fyrir janúar ? nóvember 2003.

Hafnarstjóri fór yfir uppgjörið og greindi frá helstu fjárhagsstærðum  Hann greindi einnig frá endurkröfu á óinnheimtum virðisaukaskatti.

 

4. Önnur mál.

Guðmundur Páll fór yfir þá framtíðarsýn sem blasti við og hvatti til þess að fundað yrði með hreppsnefndum á svæðinu.  Einnig ræddi hann um kaupin á Klafastöðum og eignarhald á öðru landi.

 

Davíð spurðist fyrir um virðisaukaskattsmálið og Eiður spruði um fyrirhugaðar siglingar Samskipa til Grundartanga. 

 

Guðmundur Eiríksson greindi frá því að hann liti á þær breytingar sem gerðar hefðu verið á rekstrinum sem skref í rétta átt og framundan væru spennandi verkefni.

 

Marinó fór aðeins yfir flutninga Samskipa og þá túlkun að IJ hefði átt að greiða fyrir allan flutning.  Hafnarstjóri fór yfir málið.

 

Ásbjörn ræddi um ábrygð stjórnar og nauðsyn þess að hlutir væru eins skýrir og kostur er.  Hann ræddi einnig um álitsgerð Björns Líndals hdl. um rekstrarform hafnarinnar.


Fleira ekki gert,
fundi slitið kl. 12:20


 

 


 

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00