Skipulags- og umhverfisnefnd (2002-2006)
128. fundur skipulags- og umhverfisnefndar Akraness haldinn í fundarsal að Dalbraut 8 , mánudaginn 30. janúar 2006 kl. 16:00.
Mætt á fundi: Magnús Guðmundsson formaður
Lárus Ársælsson
Kristján Sveinsson
Eydís Aðalbjörnsdóttir
Elínborg Halldórsdóttir
Auk þeirra voru mætt: Þorvaldur Vestmann sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs
Guðný J. Ólafsdóttir sem ritaði fundargerð
1. Aðalskipulag Akraness, stefnumótun og vinna Mál nr. SU030074
410169-4449 Akraneskaupstaður, Stillholti 16-18, 300 Akranesi
Árni Ólafsson og Gylfi Guðjónsson arkitektar mættu á fundinn vegna lokavinnu aðalskipulagsins.
Athugasemdafrestur vegna auglýsingar aðalskipulagsins rann út 6. jan. 2006 og barst ein athugasemd frá Umhverfisstofnun dags. 6. janúar 2006.
Athugasemdir Umhverfisstofnunar og afgreiðsla skipulagsnefndar.
Tilvitnun úr bréfi UST:
?Í kafla 3.2.6 í greinargerðinni eru strandsvæði einungis flokkuð í einn flokk, þ.e. flokk ?B? lítið snortið. Umhverfisstofnun bendir á að hluta strandlengjunnar við Akranes má flokka undir flokk ?A?, ósnortið. Því má leiða að því líkum að strandlengjan við Akranes verði undir lok skipulagstímans færð niður um einn flokk, þ.e. flokk ?B? miðað við stefnumörkun aðalskipulagstillögunnar.?
Bókun:
Strandlengjan verði öll áfram í flokki B eins og lagt var til í auglýstri tillögu.
Ekki liggur fyrir nákvæm greining á stöðu eða flokkun sjávar við strendur Akraness. Mælingar benda þó til að ástand sjávar sé gott, m.a. í höfninni og á Langasandi. Skv. áætlun um fráveitu bæjarins er gert ráð fyrir útrás skolpveitu til norðurs frá hreinsistöð við Ægisbraut og að umhverfismörkum skv. 2. lið fylgiskjals 2 við reglugerð um fráveitur og skolp nr. 798/1999 verði náð um 200 m frá landi þar sem næst er. Auk þess mun athafnasemi og atvinnustarfsemi við ströndina, t.d. höfnin, óhjákvæmilega hafa einhver áhrif á umhverfi sitt.
Með flokkun strandsvæða í flokk B, lítið snortið vatn, eru sett ákveðin viðmiðunarmörk um áhrif mannsins á umhverfið til þess að tryggja ákveðin gæði og eiginleika sjávar og strandar. Eftir sem áður getur ástandið verið betra víðast með ströndinni, jafnvel og vonandi í samræmi við þau mörk sem fylgja flokki A. Með stefnu um flokkun strandsvæða er ekki verið að stefna öllu svæðinu niður að ákveðnu mengunarmarki heldur verið að tryggja ákveðin gæði þar sem aðstæður eru verstar.
Tilvitnun úr bréfi UST:
?Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr, 196/1999 um varnir gegn mengun vatns og 9. gr. reglugerðar nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnis¬sambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri skal kortleggja svæði viðkvæm fyrir mengun og menguð svæði. Umhverfisstofnun hvetur til þess að sett verði fram tímasett markmið varðandi það hvernig ákvæði reglugerðarinnar verði uppfyllt.?
Bókun:
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við bæjaryfirvöld og nágrannasveitarfélög að unnin verði áætlun um varnir gegn mengun vatns á skipulagssvæðinu í tengslum við endurskoðun svæðisskipulags sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar.
Tilvitnun úr bréfi UST:
?Umhverfisstofnun vekur athygli á að staðfest hefur verið sameiginleg svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir Suðurland, Suðvesturland og Vesturland (sameiginleg svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2005-2020). Stofnunin telur rétt að það komi fram í greinargerð aðalskipulagsins.?
Bókun:
Texti í greinargerð hefur verið endurskoðaður með hliðsjón af samþykkt bæjarstjórnar á svæðisáætluninni.
Tilvitnun úr bréfi UST:
Vegna ákvæða 4. gr. reglugerðar nr. 1000/2005 um kortlagningu hávaða og aðgerðaráætlanir ?telur Umhverfisstofnun nauðsynlegt að við gerð aðalskipulags sé í greinargerð fjallað um umferðartölur um helstu þjóðvegi í sveitarfélaginu og birtar spár um umferð á gildistíma skipulagsins og út frá þeim lagt mat á hljóðstig í nágrenni þeirra. Að öðrum kosti sé ekki hægt að meta hvort ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar geti átt við um vegi innan sveitarfélagsins á gildistíma skipulagsins.?
Bókun:
Reglugerð nr. 1000/2005 var gefin út af Umhverfisráðuneytinu 9. nóvember 2005 en á þeim tíma var frágangi skipulagsgagna til auglýsingar sem næst lokið.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að gengið verði frá kortlagningu hávaða í bæjarlandinu og samin aðgerðaráætlun fyrir 1. janúar 2008.
Tilvitnun úr bréfi UST:
?.... Umhverfisstofnun hvetur til þess að sveitarfélagið setji sér tímasett markmið hvað varðar mat á viðtaka fráveitu. Stofnunin telur mikilvægt að í aðalskipulagi sé gert grein fyrir söfnun, meðferð og losun skólps og meðhöndlun seyru.?
Bókun:
Þann 1. janúar 2006 tók Orkuveita Reykjavíkur við rekstri fráveitukerfisins á Akranesi ásamt viðhaldi og framtíðaruppbyggingu þess. Gert er ráð fyrir að endurbótum til að uppfylla ákvæði reglugerðar um fráveitur og skolp verði lokið fyrir árslok 2008.
Greinargerðartexta í kafla 3.4.5. um fráveitu er breytt. Gerð er grein fyrir áætlun um hreinsun fráveituvatns sem unnin hefur verið.
Tilvitnun úr bréfi UST:
?Umhverfisstofnun er almennt ekki hlynnt landfyllingum, einkum ef um er að ræða svæði þar sem náttúra er tiltölulega ósnert eða þar sé að finna einhvers konar auðlindir, t.d. fæðuöflunarsvæði dýra, hrygningarstöðvar o.fl. Umhverfisstofnun er því andvíg þeirri stefnumörkun sem fram kemur í aðalskipulaginu um landfyllingar við Leyni enda munu fyrirhugaðar landfyllingar hafa í för með sér stórvægilegar breytingar á ströndinni.? Stofnunin telur að hægt sé að koma nýrri byggð fyrir annars staðar í bænum og að með fyrirhugaðri byggð sé verið að færa byggð aftur að sjó og hugsanlega skapa sama vandamál og nú er.
Umhverfisstofnun bendir einnig á að landfyllingar vegna Skarfatangahafnar kunni að vera háðar mati á umhverfisáhrifum svo og sjóvarnargarður í Leyni. ?Stofnunin bendir á nauðsyn þess að könnuð verði hugsanleg áhrif breytinga á straumum vegna landfyllinga við Skarfatangahöfn og áhrifum fyllinga á Langasand. Skoða þarf einnig efnistökumál vegna landfyllinga í heild, þannig að yfirsýn fáist um umfang þeirra og hvaðan efni verður sótt.? Stofnunin bendir einnig á að fyrirhugaðar landfyllingar muni hugsanlega valda töluverðum sjónrænum áhrifum og að stækkun hafnar við Skarfavör muni að líkindum skaða minjar, skerða náttúrulega strönd sem þar er og auka umferð flutningabíla um bæinn.
Bókun:
Nýting hluta landfyllingar í Leyni, austan Sólmundarhöfða, er talin hagkvæm vegna nálægðar við dvalarheimilið Höfða. Í deiliskipulagi svæðisins skal ákvarða fjarlægð byggðar frá varnargarði og hæðarsetningu hennar í samráði við Siglingastofnun þannig að fyllsta öryggis verði gætt m.t.t. flóða og sjávargangs. Gerð er breyting á aðalskipulagsuppdrætti þannig að íbúðarsvæði austan Sólmundarhöfða verði ekki nær strönd en 60 m.
Gerð Skarfatangahafnar styður markmið bæjarstjórnar um framþróun og uppbyggingu atvinnulífs á Akranesi og að fyrirtæki í matvælavinnslu verði leiðandi á heimsvísu. Skipulagslínur eru á þessu stigi dregnar eftir frumdrögum að hönnun hafnarinnar. Við endanlega hönnun verða umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og einstakra þátta hennar metin og teknar ákvarðanir um lausnir og útfærslur í samræmi við það.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að auki rétt að rýmka lítillega suðurenda svæðis F1 til þess að auka svigrúm við framtíðarhönnun þjóðvegarins.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillaga að aðalskipulagi Akraness 2005-2017 verði samþykkt með framangreindum breytingum og send Skipulagsstofnun til yfirferðar og umhverfisráðherra til staðfestingar.
2. Kalmansvík, rammaskipulag Mál nr. SU050057
410169-4449 Akraneskaupstaður, Stillholti 16-18, 300 Akranesi
Árni Ólafsson og Gylfi Guðjónsson arkitektar mættu á fundinn.
Rætt um forsendur og stefnu í rammaskipulagi fyrir nýtt byggingarsvæði á Kalmansvíkursvæði. Tillögur ráðgjafa verða lagðar fram 13. mars 2006.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að nú þegar verði gerðar athuganir á jarðvegsdýpt á svæðinu.
3. Smiðjuvellir, endurskoðun deiliskipulags Mál nr. SU050031
410169-4449 Akraneskaupstaður, Stillholti 16-18, 300 Akranesi
Endurskoðað deiliskipulag Smiðjuvalla lagt fram.
Gerðar voru smávægilegar athugasemdir við deiliskipulagið sem sviðsstjóra er falið að lagfæra.
Lárus og Eydís telja að tillagan gangi ekki nógu langt í að koma til móts við mikla eftirspurn eftir atvinnulóðum og leggjast því gegn samþykkt tillögunnar.
Meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar leggur til að deiliskipulagstillagan verði auglýst samkv. 1.mgr. 26.gr.skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
4. Vallholt 5, deiliskipulagsbreyting Mál nr. SU060003
200263-2199 Guðmundur Egill Ragnarsson, Vallarbraut 1, 300 Akranesi
Bréf Guðmundar Egils Ragnarssonar dags. 23. janúar 2006 þar sem hann óskar eftir áliti nefndarinnar á því að breyta lóðinni við Vallholt 5 úr iðnaðarlóð í íbúðasvæði.
Skipulags - og umhverfisnefnd tekur jákvætt í hugmyndir bréfritara en bendir á að breytt landnotkun kallar á endurskoðun á aðal- og deiliskipulagi.
5. Þjóðbraut 1, deiliskipulagsbreyting Mál nr. SU060004
430590-1549 Sveinbjörn Sigurðsson ehf, Smiðshöfða 7, 110 Reykjavík
Bréf Magnúsar H. Ólafssonar arkitekts dags. 20. janúar 2006 þar sem hann óskar eftir því f.h. Sveinbjörns Sigurðssonar ehf. að breyta gildandi deiliskipulagi við Þjóðbraut 1.
Breytingin felst í að fá að byggja hæð sem yrði um 1300 m2 með bílakjallara undir og íbúðaturn uppá 3-6 hæðir með allt að 24 íbúðum.
Skipulags- og umhverfisnefnd hefur þegar ráðið ráðgjafa til að endurskoða deiliskipulag þess svæðis sem fjallað er um í erindi bréfritara.
Erindið verður tekið til skoðunar í þeirri vinnu.
Nefndin óskar eftir því að ráðgjafinn komi á fund nefndarinnar 13. febrúar næstkomandi með fyrstu hugmyndir að nýju deiliskipulagi.
6. Umferðaröryggisáætlun til ársins 2012 Mál nr. SU060005
410169-4449 Akraneskaupstaður, Stillholti 16-18, 300 Akranesi
Bréf bæjarráðs dags. 27. janúar 2006 þar sem skipulags- og umhverfisnefnd er falið að svara erindi Umferðarstofu varðandi umferðaröryggisáætlun til ársins 2012.
Skipulags- og umhverfisnefnd felur sviðsstjóra að svara erindinu.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 19.00