Skólanefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands (2001-2009)
KÓLANEFND FJÖLBRAUTASKÓLA VESTURLANDS Á AKRANESI
Fundur í skólanefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi haldinn í skólanum þriðjudaginn 11. desember 2001 kl. 12:00.
Mætt voru: Þorgeir Jósefsson, formaður skólanefndar,
Hörður Helgason skólameistari,
Atli Harðarson aðstoðarskólameistari,
Ásgeir Gylfason,
Bergþóra Jónsdóttir,
Borghildur Jósúadóttir,
Guðrún Jónsdóttir,
Sigurgeir Sveinsson.
1. Staðan í fjármálum skólans og horfur.
Skólameistari fór yfir fjárhagsstöðu skólans og lét fylgja með yfirlit yfir hana til fundarmanna. Í ljós kemur að líklegast verði um 13 millj. kr. halli á þessu ári. Á síðasta ári var rekstrarhallinn um 20 milljónir.
Því næst fór skólameistari yfir horfur ársins 2002 og þar er gert ráð fyrir um það bil 16 millj. kr. halla miðað við óbreyttar forsendur. Í máli skólameistara kom fram að nýtt reiknilíkan hefur verið gert, en það hefur ekki verið samþykkt ennþá. Endurskoðað reiknilíkan mun koma til með að lagfæra stöðu skólans fjárhagslega, en það hefur enn ekki verið samþykkt og því eru fjárheimildir til framhaldsskóla fyrir árið 2002 unnar eftir reiknilíkaninu eins og það hefur verið.
Í fjárveitingum til skólans fyrir árið 2002 er umframkostnaður vegna deildanna fyrir vestan viðurkenndur að hluta og fær skólinn 4 millj. kr. í það verkefni. Launakostnaður mun hækka um 3% í byrjun árs samkvæmt kjarasamningum og skólameistari gerir ráð fyrir 5% hækkun á öðrum rektrargjöldum skólans.
Skólameistari fór því næst nákvæmlega yfir önnur rekstrargjöld en laun og gerði samanburð milli ársins 2000 og þeirrar stöðu sem hún er í dag.
Innritunargjöld á ári hafa nú verið hækkuð úr kr. 6.000.- í kr. 8.500.- á ári, þ.e. 4.250.- á önn, hækkunin tekur gildi árið 2002. Þá er heimild í fjárlögum 2002 fyrir því að hækka efnisgjöld en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hækkun. Þá sagði skólameistari að líklega yrði sett gjald á nemendur kr. 1.000.- fyrir ýmiskonar pappírskostnaði sem óhjákvæmilega yrði bæði í bókasafni og tölvustofum, en þetta gjald er innheimt í einhverjum skólum og voru fundarmenn sammála þessu gjaldi.
Skólameistari sagðist hafa skýr skilaboð frá ráðuneyti um að reka skólann samkvæmt fjárlögum og skera niður kostnað. Umræður urðu síðan um kostnað við rekstur skólans, brottfall nemenda og leiðir til að minnka brottfall. Í máli aðstoðarskólameistara kom fram að 44 nemendur hafa hætt á þessari önn, að hluta til eða alveg, og að nemendum á annarri og þriðju önn sé hættast við að flosna úr námi. Guðrún spurði um inntökuskilyrði í skólann. Skólameistari sagði að allir sem sækja um skólavist fá inni í skólanum. Það eru ákveðin inntökuskilyrði inn á stúdentsbrautir og í verknámið. Engin inntökuskilyrði eru hins vegar á almenna námsbraut.
Guðrún spurði hvernig tekið yrði á skuldahala skólans. Skólameistari svaraði því til að ráðuneytið segi að fyrst verði að reka skólann hallalausan og þá verði skuldahalinn skoðaður og ákvarðanir teknar. Fundarmenn ræða síðan leiðir til að lækka kostnað og aðstoðarskólameistari og skólameistari segja að fækka verði fámennum námshópum, þó verði að huga vel að því að nemendum skólans fækki ekki.
2. Drög að nýjum skólasamningi við menntamálaráðuneytið kynnt.
Skólameistari fór yfir og kynnti drög að samningnum sem stjórnendur væru búnir að fara yfir og senda til baka til menntamálaráðuneytisins. Fundarmenn ræddu innihald hans. Skólasamningurinn verður lagður fyrir skólanefnd þegar hann kemur að nýju frá ráðuneytinu.
Nefndarmenn eru því sammála að það sé óréttlátt kerfi að þegar t.d. 600 nemendur hefji nám á haustönn en 550 skili sér til prófa, að skólinn verði af tekjum við það, þar sem þá er búið að skipuleggja önnina.
3. Byggingamál skólans og horfur.
Búið er að semja við verktaka um að ljúka byggingu húsnæðis fyir bókasafn. Skólameistari telur að hagstæð tilboð hafi borist í verkið. Skólameistari fjallaði síðan um næstu skref sem fyrirhuguð eru í byggingarmálum. Guðrún sagði erfitt fyrir sveitarstjórnir að standa undir kostnaði við skólabyggingar og sagðist vonast til þess að nýjar reglur um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga yrðu settar fljótlega á næsta ári, en þar er m.a. gert ráð fyrir að ríkið taki alfarið að sér stofnkostnað við framhaldsskóla.
4. Hugmyndir að nýjum námsbrautum kynntar.
Aðstoðarskólameistari sagði frá hugmyndum að nýjum námsbrautum við skólann, þ.e. stóriðjubraut og tölvutæknibraut. Á stóriðjubraut yrði 2 ára starfstengt nám. Þeir sem útskrifast af þessari námsbraut munu ganga fyrir með vinnu hjá stóriðjuverunum tveimur sem hafa unnið að skipulagningu brautarinnar með skólanum, en það eru Jánrblendifélagið og Norðurál.
Um tölvutæknibrautina sagði aðstoðarskólameistari að samkvæmt ummælum embættismanna í menntamálaráðuneytinu yrði farsælast að fara þá leið að gera hana að kjörsviði á náttúrufræðibraut þar sem það tæki of langan tíma að fá jákvætt svar frá Starfsgreinaráði og óvíst um samþykki þess þegar svar loks bærist. Skólinn hefur sótt um heimild til að fara þessa leið.
Síðan var rætt um aðra möguleika á öðru starfsnámi og hvort ekki ætti að fá nemendur skólans til að heimsækja grunnskólana og kynna námsmöguleikana í fjölbrautaskólanum.
5. Önnur mál.
Skólameistari leggur fram skýrslu um starfsemi Fjölbrautaskólans árið 2001.
Birna Gunnlaugsdóttir segir upp störfum við skólann og mun hún láta af störfum í upphafi vorannar. Auglýst hefur verið eftir kennara.
Fundi slitið.
Fundarritari, Sigurgeir Sveinsson.