Skólanefnd (2000-2008)
41. fundur skólanefndar Akraness haldinn í bæjarþingsal á Akranesi, miðvikudaginn 13. október 2004 kl. 17:00.
Mætt á fundi: Björn S. Lárusson, formaður
Eydís Aðalbjörnsdóttir
Jónas Ottósson, varaformaður
Sigrún Ríkharðsdóttir
Áheyrnarfulltrúar: Auður Hrólfsdóttir, skólastjóri
Guðbjartur Hannesson, skólastjóri
G
Fyrir tekið:
1. Málefni grunnskólanna.
Í upphafi fundar las formaður skólanefndar upp bréf frá áheyranarfulltrúum kennara í skólanefnd, Guðbjörgu Árnadóttur og Laufeyju Karlsdóttur. Í bréfinu kom fram að þær geta ekki sótt skólanefndarfund vegna verkfalls grunnskólakennara. Formaður bauð nýjan fulltrúa foreldra grunnskólabarna, Guðmund Þorvaldsson, velkominn.
Guðbjartur kvaddi sér hljóðs og kynnti bókun skólastjóra og aðstoðarskólastjóra sem lögð var fram á fundinum:
?Skólastjórar grunnskólanna á Akranesi lýsa yfir áhyggjum sínum vegna verkfalls kennara. Nú þegar eru liðnar rúmar þrjár vikur án lögboðinnar kennslu og ljóst að vetrarstarf raskast verulega með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir nemendur okkar. Með nýjum grunnskólalögum 1995, aðalnámskrá grunnskóla 1999 og síðustu kjarasamningum 2001 eru gerðar stórauknar kröfur til kennara og skólanna, kröfur sem hafa ekki skilað sér í launaumslögin. Enn er fyrirhugað að auka álagið á grunnskólann með styttingu kennslu til stúdentsprófs. Skólastjórar grunnskólanna harma að ekki hafi náðst samkomulag milli aðila um túlkun síðasta kjarasamnings og þann ágreining sem er um vinnutíma kennara. Strax við upphaf yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga árið 1996 gerði bæjarstjórn Akraness athugasemd við það fjármagn sem flyttist til sveitarfélaganna og hlýtur því enn á ný að vekja athygli á að frá upphafi var ?vitlaust? gefið. Skólastjórar skora á skólanefnd og bæjaryfirvöld að beita áhrifum sínum til að kjarasamningar náist og kjör kennara verði bætt verulega. Þannig yrði viðurkennt mikilvægi öflugrar grunnmenntunar fyrir samfélagið og auknar kröfur til grunnskólanna.?
Undir þetta rita: Auður Hrólfsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Hrönn Ríkharðsdóttir og Ingvar Ingvarsson.
Formaður lagði til í framhaldi af bókun skólastjóra og aðstoðar-skólastjóra eftirfarandi bókun:
?Skólanefnd samþykkir að vísa framkominni bókun skólastjóra grunnskólanna til bæjarráðs.?
Tillagan samþykkt samhljóða.
Formaður óskaði síðan eftir að grunnskólastjórar kynntu helstu áherslur í starfi skólanna á komandi skólaári. Guðbjartur lagði fram skólanámskrá Grundaskóla og afhenti fundarmönnum eintak. Talsvert var rætt um sjálfsmat skólans og viðbrögð innan skólans við þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Meðal upplýsinga sem fram komu er að þátttaka nemenda í grunnskólum Akraness í samræmdum prófum í 10. bekk er með því hæsta sem gerist á landinu.
Auður gerði síðan grein fyrir stöðu skólanámskrárgerðar í Brekkubæjarskóla. Dreift var bekkjarnámskrá til foreldra í haust, Litli lýsingur er í prentsmiðjunni og talsverðar upplýsingar liggja á heimsíðu skólans. Auður dreifði bækling um teymisvinnu sem fyrirhuguð er á skólaárinu. Einnig dreifði hún símenntunaráætlun skólans fyrir árið 2004. Mikil áhersla verður lögð á að efla starf í anda stefnu skólans þ.e. ?góður og fróður?. Fyrir liggur áætlun um hvernig þessari vinnu verði háttað.
Skólanefnd lýsir yfir ánægju sinni með framkomna upplýsingar.
2. Önnur mál
Sigrún gerði að umtalsefni umsókn vegna undanþágu fyrir einn nemanda í sérdeild. Búið er að sækja þrisvar um undanþágu fyrir nemandann en svar hefur ekki borist við síðustu tilraun.
Fleira ekki gert ? fundi slitið kl. 18:15