Stjórn Akranesstofu (2008-2013)
27. fundur stjórnar Akranesstofu var haldinn þriðjudaginn 18. maí 2010 í fundarherbergi á bæjarskrifstofu Akraneskaupstaðar, Stillholti 16-18 og hófst hann kl. 18:00.
Mættir: Þorgeir Jósefsson, formaður
Bergþór Ólason, varaformaður
Björn Guðmundsson, aðalmaður
Ólafur H. Haraldsson, varamaður
Þröstur Ólafsson, varamaður sem mætti kl. 18,25
Auk þeirra Tómas Guðmundsson, verkefnastjóri sem einnig ritaði fundargerð.
Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Fyrir tekið:
1. Tjaldsvæðið á Akranesi
Samningur við umsjónaraðila
Verkefnastjóri kynnti drög að samningi við umsjónaraðila tjaldsvæðisins fyrir árið 2010.
Stjórn Akranesstofu leggur til að gengið verði til samninga við umsjónaraðila miðað við fyrirliggjandi samningsdrög.
Sumarið framundan
Verkefnastjóri gerði grein fyrir starfsemi á tjaldsvæðinu á sumri komanda.
Skipulagsmál
Verkefnastjóri kynnti tillögur að nýju skipulagi á tjaldsvæðinu við Kalmansvík sem unnið er af Skipulags- og umhverfisstofu.
Erindi Trésmiðjunnar Akurs ehf.
Verkefnastjóri kynnti erindi Trésmiðjunnar Akurs á Akranesi varðandi uppbyggingu smáhýsabyggðar í tengslum við tjaldsvæðið í Kalmansvík. Björn Guðmundsson vék af fundi á meðan umræða um erindið fór fram, sbr. 22. grein samþykkta um stjórn Akraneskaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar.
Stjórn Akranesstofu styður hugmyndir um uppbyggingu á smáhýsum á tjaldsvæðinu á vegum einkaaðila.
Þar sem erindið hefur fjárhagslegar skuldbindingar í för með sér vísar stjórn Akranesstofu erindinu til bæjarráðs til afgreiðslu.
2. Starfshópur um ferðamál
Verkefnastjóri kynnti framgang verkefnisins. Starfshópurinn óskar eftir breytingu á áður gefnum tímamörkum vegna starfa hópsins, þar sem verkefnið var mun umfangsmeira en talið var.
Stjórn Akranesstofu samþykkir erindi starfshópsins um frestun lokaskýrslu fram til 1. október 2010.
3. Viskubrunnur í Álfalundi
Staða og fyrirhugaðar framkvæmdir
Verkefnastjóri fór yfir stöðu verkefnisins, en áformað er að hefja framkvæmdir við inngangshlið, leiksvæði og grillskála á allra næstu dögum, m.a. í tengslum við atvinnuátaksverkefni fyrir ungt fólk á Akranesi.
Lokaverkefni meistaranema í verkefnastjórnun frá HÍ
Verkefnastjóri kynnti lokaverkefni hóps meistaranema í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands sem unnið var í vetur og lögð fram og varin af hálfu hópsins við athöfn í Háskólanum hinn 4. maí sl. Verkefnið er alls í fimm bindum.
Stjórn Akranesstofu þakkar hópnum vel og samviskusamlega unnin störf og mikilvægt innlegg í undirbúning og framkvæmd verkefnisins ?Viskubrunnur í Álfalundi?.
Umræðum um málið frestað. Verkefnastjóra falið að dreifa skýrslunni til Stjórnar Akranesstofu og bæjarfulltrúa.
4. Listasetrið Kirkjuhvoll
Verkefnastjóri gerði grein fyrir starfsemi Kirkjuhvols á komandi vikum.
5. Starfsemi Akranesstofu
Verkefnastjóri gerði grein fyrir starfsemi Akranesstofu á undanförnum vikum og verkefnum á komandi sumri.
Verkefnastjóra falið að koma upplýsingunum á framfæri til framboðanna í næstu bæjarstjórnarkosningum.
6. Önnur mál
a. Landsfundur félags bókasafns og upplýsingafræða
Erindi Halldóru Jónsdóttur, bæjarbókavarðar sem bæjarráð vísaði til stjórnar Akranesstofu varðandi fyrirhugaðan landsfund félags bókasafns- og upplýsingafræða.
Stjórn Akranesstofu leggur til við bæjarráð að erindið verði samþykkt þar sem gömlu kjördæmin skiptast á um að vera gestgjafar á umræddum fundi og nú er komið að Vesturlandi að sinna gestgjafahlutverkinu.
b. Hugmyndasjóður
Verkefnastjóri kynnti stöðu verkefnisins og fór yfir þær tillögur sem borist hafa til sjóðsins.
c. Atvinnuátaksverkefni á vegum Akraneskaupstaðar
Verkefnastjóri kynnti þau atvinnuátaksverkefni sem lögð hafa verið inn til umsóknar hjá Vinnumálastofnun frá Akraneskaupstað.
d. Kútter Sigurfari
Verkefnastjóri upplýsti að enn hafi engin svör borist frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna erindis Akraneskaupstaðar um breytingu á samningnum um Kútter Sigurfara.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 19:15.