Tómstunda- og forvarnarnefnd (2002-2008)
91. fundur tómstunda- og forvarnarnefndar Akraneskaupstaðar var haldinn í Íþróttamiðstöðinni Jaðarsbökkum mánudaginn 1. september 2008 og hófst hann kl. 17:15.
Halldór Jónsson,
Sævar Haukdal,
Bjarki Þór Aðalsteinsson
Jónína Margrét Sigmundsdóttir
Jón Þór Þórðarson, áheyrnarfulltrúi ÍA
1. Hugmyndir ÍA um heilsuræktarstöð á Jaðarsbökkum. Sturlaugur Sturlaugsson formaður sambandsstjórnar ÍA mætti á fundinn og kynnti hugmynd að bættri heilsuræktarstöð á Jaðarsbökkum. Hugmyndin gengur út á að bæta við það húsnæði sem nú er nýtt undir starfsemina og færa upphitunaraðstöðu í hátíðarsalinn. Þá væri hægt að koma öðrum æfingartækjum betur fyrir og auka tækjakost. Fundarmenn skoðuðu núverandi aðstæður. Málin rædd. Nefndin telur að fyrirhugaðar breytingar séu áhugaverðar og mun taka fyrir málið að nýju fljótlega. Nefndin telur rétt að fresta undirritun nýs samnings en áfram er unnið skv. ákvæðum eldri samnings.
2. Erindi frá bæjaráði dags. 18.08.08. Bæjarráð óskar eftir umsögn nefndarinnar um erindi Huldu Gestsdóttur. Hulda hefur óskað eftir að ?Avísun á öflugt tómstundastarf? geti gilt í Söngskóla Huldu Gestsdóttur. Nefndinni hefur einnig borist erindi frá Katrínu Valdísi Hjartardóttur sem er samhljóða. Nefndin telur að ávísanirnar eigi að geta gilt um annað tómstundastarf en fram kemur á ávísunni í dag. Nefndin mælir með að bæjarráð samþykki fyrirliggjandi beiðni frá Huldu Gestsdóttur og Katrínu Valdísi Hjartardóttur. Sviðsstjóra falið að leggja fram drög að reglum sem taka til námsskeiðahalds á næsta fundi.
3. Starf nefndarinnar á næstu mánuðum. Lagður fram verkefnalisti nefndarinnar frá síðasta vetri. Verkefnalistinn verður tekinn fyrir á næsta fundi.
4. Umsýsla um hoppukastala. Sviðsstjóri og rekstrarstjóri leggja til að samið verði við Björgunarfélagið um umsjón með hoppuköstulum í eigu bæjarfélagsins.
5. Önnur mál.
· Sævar Haukdal gerði tillögu um að rekstrarstjóra íþróttamannvirkja safni saman upplýsingum um opnunartíma sundlauga í öðrum sveitarfélögum. Einnig að gerð verði kostnaðaráætlun um hve mikið kostar að lengja opnunartíma.
· Hildur Karen kynnti undirbúning vegna byggingar innisundlaugar að Jaðarsbökkum. Erindi með endanlegum útboðsgögnum verður sent bæjarráði 2. september og er þar gert ráð fyrir verklokum 31.12.09. Hönnun verksins lauk í maí og þá var haldinn kynningarfundur fyrir bæjarfulltrúa og hagsmunaaðila. Að því loknu ákvað bæjarráð að auglýsa útboð á verkinu í ágúst. Þvi hefur nú verið frestað þar sem milliuppgjör bæjarstjóðs liggur ekki fyrir. Hönnun sundlaugarinnar er mjög metnaðarfull sem uppfyllir kröfur almennings og íþróttafólks. Í því sambandi má nefna að sérstaklega er hugað að þörfum fjölfatlaðra. Við hönnun sundlaugarinnar var leitað ráðgjafar kennara, Sundfélags Akraness, starfsfólk Íþróttamiðstöðvarinnar Jaðarsbökkum, starfsfólks Fjöliðjunnar og mannvirkjanefndar Sundsambands Íslands. Hafa ábendingar frá öllum þessum aðilum verið yfirfarnar við hönnunina. Með því er tryggt að byggingin verði lyftistöng fyrir sundiðkun almennings, skólafólks og íþróttafólks.