Akranesviti vinsæll í desember
Mikið hefur verið um að vera í Akranesvita í desember. Ferðamenn frá öllum heimshornum hafa komið í heimsókn, þá m.a. frá Singapore, Bandaríkjunum, Grikklandi, Þýskalandi og Sviss. Hilmar Sigvaldason vitavörður hefur tekið á móti ferðamönnum og skipulagt viðburði og einnig hefur Hannibal Hauksson ferðamálafulltrúi Akraneskaupstaðar tekið á móti ferðamönnunum.
Þann 20. og 21. desember voru haldnir styrktartónleikar í vitanum, en gestir gátu látið fé af hendi í söfnunarkassa fyrir Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Fyrri daginn söng tríóið Stúkurnar á tónleikunum en á aðventutónleikunum stóð dagskráin frá kl. 14-16.30 og fram komu fjölmargir tónlistarmenn frá Akranesi, m.a. Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, hljómsveitin My Sweet Baklava, Famina Futura og margir fleiri.
Hægt er að fylgjast með viðburðum í Akranesvita á facebooksíðu vitans.