ASK arkitektar deiliskipuleggja Sementsreitinn á Akranesi
ASK arkitektum í Reykjavík hefur verið falið að deiliskipuleggja svonefndan Sementsreit á Akranesi samkvæmt samningi sem Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Páll Gunnlaugsson arkitekt undirrituðu þar í morgun. Stefnt er að því að ljúka öllu skipulagsferlinu fyrir lok árs 2016. Skipulagið tekur aðallega til athafnasvæðis Sementsverksmiðjunnar. Akraneskaupstaður tók við svæðinu í árslok 2013 og ætlar að nýta það fyrir íbúðabyggð og þjónustu auk hafntengdrar starfsemi.
Regína Ásvaldsdóttir segir þetta mjög stórt verkefni, enda skipulagssvæðið alls um 75 þúsund fermetrar. „Sementsreiturinn sjálfur er 55 þúsund fermetrar og svo nær skipulagið yfir Faxabrautina meðfram honum og einnig yfir hluta hafnarsvæðisins. Ásýnd strandlengjunnar á Akranesi mun taka miklum breytingum með uppbyggingunni þarna.“
Páll Gunnlaugsson segir verkefnið áhugavert og óvenjulegt í ýmsum skilningi. „Hönnunarreiturinn er á sögulegu svæði og þar er eitt helsta kennileiti Akraness. Það er tímanna tákn að leggja niður verksmiðju miðsvæðis í bæjarsamfélagi og skipuleggja landið til annarra nota. Akraneskaupstaður sýnir hér mikinn metnað fyrir sína hönd og íbúanna og fyrir okkur hönnuðina er verkefnið bæði ögrandi og spennandi.“
Efnt var til opins íbúafundar í ársbyrjun 2014 um framtíðarnýtingu Sementsreitsins og bæjarráð skipaði starfshóp til að fjalla um framhaldið. Óskað var eftir rammatillögum að skipulagi reitsins frá þremur arkitektastofum, ASK arkitektum, Kanon arkitektum og Landmótun, og tillögur þeirra voru kynntar íbúum á fundi í október 2015. Starfshópurinn ákvað í desember að semja við ASK arkitekta um að ljúka deiliskipulagsvinnunni.
Verkefnið verður unnið í nánu samráði við Faxaflóahafnir, enda er hluti skipulagssvæðisins í eigu þeirra.
Gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist á skipulagslýsingu og svo taki hin eiginlega skipulagsvinna við í maímánuði og drög að skipulagi verði kynnt almenningi síðsumars. Endanleg skipulagsgögn skulu liggja fyrir í september og þá verður skipulagið auglýst. Öllu ferlinu á að ljúka fyrir áramót.