Bæjarlistamaður Akraness 2023 - Eva Björg Ægisdóttir
Bæjarlistamaður Akraness árið 2023 er rithöfundurinn Eva Björg Ægisdóttir.
Eva Björg fæddist á Akranesi árið 1988 og ólst hér upp, enda nýtir hún sér óspart innsýn sína í bæði staðhætti og bæjarbraginn hér á Akranesi við að skapa sögusvið skáldsagna sinna. Eva hefur fengist við skriftir frá unga aldri og á unglingsaldri hlaut hún m.a. verðlaun í smásagnasamkeppni í Grundaskóla.
Eva kom fyrst fram á sjónarsvið íslenskra lesenda árið 2018 þegar hún sigraði í samkeppninni Svartfuglinn fyrir glæpasöguna Marrið í stiganum. Þessi glæpasaga gerist einmitt á Akranesi og þar kynntust lesendur rannsóknarlögreglukonunni Elmu og aðstoðarmanni hennar, Sævari, sem einnig koma við sögu í fleiri bókum hennar.
Fleiri skáldsögur hafa svo fylgt í kjölfarið: Stelpur sem ljúga (2019), Næturskuggar (2020), Þú sérð mig ekki (2021) og Strákar sem meiða (2022).
Frumraun hennar Marrið í stiganum, hlaut Íslensku hljóðbókarverðlaunin árið 2020 og Svartfuglinn eins og áður sagði árið 2018 en þau verðlaun stofnuðu glæpsagnarhöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson í samvinnu við bókarforlagið Veröld.
Nýjasta bókin hennar Strákar sem meiða var nýverið tilnefnd til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna.
Þá hafa bækur Evu verið þýddar og munu þýðingarnar vera orðnar 18 talsins. Unnendur góðra spennusagna geta nú lesið bækur hennar m.a. í Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Hollandi, Grikklandi, Makedóníu, Eistlandi, Japan, Póllandi, Spáni, Portúgal, Eþíópíu, Búlgaríu, Serbíu og Ungverjalandi.
Þess má geta að Ensk þýðing Victoriu Cribb á Marrið í stiganum, The Creak on the Stairs, hlaut bresk glæpsagna verðlaun sem frumraun ársins 2021.
Eva Björg er rithöfundur sem er kominn til að vera. Hún varð strax eftirtektarvert og atkvæðamikið skáld. Hún hefur skrifað 5 skáldsögur á jafnmörgum árum. Hún er stolt Skagamær sem nýtir hvert tækifæri í umræðu og viðtölum til að segja frá uppruna sínum héðan af Akranesi. Eins og áður segir, þá notar hún Akranes óspart sem sögusvið fyrir bækur sínar og þess vegna er það örugglega allt önnur upplifun fyrir okkur Skagafólk að lesa bækur hennar heldur en fyrir þá sem þekkja ekki til, það er eins og sagan gerist bókstaflega í garðinum hjá okkur. Bækur hennar eiga þess vegna sérstakan stað í hjörtum okkar allra. Eva er stolt okkar Skagamanna og einstök fyrirmynd, verðug þess að hljóta þennan heiður.
Eva Björg Ægisdóttir – hjartanlega til hamingju með titilinn bæjarlistamaður Akraness