Bæjarstjóri færði áhöfninni á Lundey NS 14 rjómatertu
03.02.2015
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri færði áhöfninni á Lundey NS 14 rjómatertu í dag, þann 3. febrúar, í tilefni þess að verið var að landa fyrstu loðnunni á Akranesi í ár. Lundey sigldi í Akraneshöfn um klukkan þrjú í dag með um 1.550 tonn af loðnu. Arnþór Hjörleifsson skipstjóri á Lundey tók við tertunni en fimmtán manns eru í áhöfninni. Lundey stoppar í 10 tíma á Akranesi en skipið fór til veiða í lok janúar. Lundey NS 14 er í eigu HB Granda og er skráð á Vopnafirði. ,,Þetta er skemmtileg hefð sem er um að gera að halda við“ sagði Regína en áralöng hefð er fyrir því á Akranesi að gefa áhöfn fyrsta loðnubátsins rjómatertu.