Bláfánanum flaggað í ellefta sinn
Í morgun var Bláfánanum fyrir Langasand flaggað í ellefta sinn. Alþjóðleg vottunarnefnd Blue Flag ( Bláfánans ) fjallaði um niðurstöður úttektar á umsóknargögnum og ákvað að veita Langasandi Bláfánann fyrir árið 2023. Sækja þarf um Bláfánavottun á hverju ári. Vottunarstofan Tún er eftirlitsaðili að Bláfánanum en fánatímabil Langasands er frá 19. maí til 31. október.
Börn af leikskólunum Garðasel og Teigasel voru mætt á staðinn. Einnig starfsmenn garðyrkjudeildar og flokkstjórar Vinnuskólans auk garðyrkjustjóra. Athöfnin var stutt að þessu sinni vegna úrhellisrigningar.
Við athöfnina voru einnig Ragnar Þórðarson frá Vottunarstöðinni Tún og Haraldur Benediktsson bæjarstjóri. Ragnar afhenti Haraldi fánann og aðstoðuðu nokkur börn við að flagga honum.