Bókun bæjarráðs Akraness um afhendingu Hvalfjarðargangna
Í morgun þann 13. september var erindi Spalar ehf. um afhendingu Hvalfjarðargangna tekið fyrir (sjá hér, liður nr. 9). Erindið var sent á alla hluthafa félagsins en samkvæmt áætlun verða veggjöld innheimt til 28. september og göngunum formlega skilað til ríkisins þann 30. september. Bókun bæjarráðs var svohljóðandi:„Bæjarráð fagnar þessum merku tímamótum og leggur áherslu á að áætluð tímamörk um yfirtöku ríkisins á Hvalfjarðargöngum standist og að framkvæmdin verði með þeim hætti að það sé ekki til tjóns fyrir hluthafa Spalar ehf. og Eignarhaldsfélags Spalar hf. Bæjarráð fagnar þeim fréttum að áfram verði mönnuð vakt í Hvalfjarðargöngunum eftir yfirtöku ríkisins. Bæjarráð telur mjög mikilvægt að áfram verði öryggi þeirra sem um göngin fara í fyrirrúmi líkt og verið hefur í tíð Spalar.“
Í tilkynningu Spalar kemur fram að settur sé fyrirvari um tímasetningu að þeim forsendum gefnum að Ríkisskattstjóri fallist á tiltekna meðferð á skattalegri afskrift ganganna og að Samgöngustofa skili fyrirvaralausri úttekt á göngunum í aðdraganda eigendaskiptanna. „Þetta er mikið hagsmunamál fyrir íbúa Akraness, íbúa Vesturlands og alla íbúa á landinu. Mikilvægt er að þetta sér gert rétt, gert vel og að allir gangi sáttir frá borðinu.“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.