Fara í efni  

Elsti núlifandi Akurnesingurinn fagnar 100 ára afmæli í dag

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri Höfða, Stefán Bjarnason afmælisbarn og Regína Ásvaldsdóttir bæj…
Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri Höfða, Stefán Bjarnason afmælisbarn og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.

Það er ekki á hverjum degi í sjö þúsund manna samfélagi að íbúar nái 100 ára aldri og því ber að fagna. Í dag fagnar einmitt Stefán Bjarnason fyrrum yfirlögregluþjónn á Akranesi 100 ára afmæli sínu. Stefán er búsettur á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða á Akranesi.

Stefán fæddist þann 18. janúar 1917 á Sauðárkróki og ólst hann upp á Siglufirði frá 9 ára aldri. Á facebooksíðunni Langlífi (sjá hér) er sagt frá Stefáni og hans ævi. Þar kemur fram að Stefán sé ekki bara elsti núlifandi Akurnesingurinn heldur einnig elsti lögreglumaðurinn á Íslandi. Stefán gengdi starfi sem sumarstarfsmaður í lögreglunni á Siglufirði á árunum 1937-1940. Hann hóf störf í lögreglunni á Akranesi árið 1941 og starfaði þar alla sína starfsævi eða til 65 ára aldurs. Hann varð yfirlögregluþjónn árið 1958. Á yngri árum æfði og kenndi Stefán fimleika og var m.a. stofnandi fyrsta fimleikaflokks á Akranesi. Hann gegndi einnig formennsku karlakórsins Svana á Akranesi. Stefán eignaði þrjú börn með konu sinni Vilborgu Sigursteinsdóttur (1922-2008).

Í tilefni dagsins heimsóttu Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri Höfða Stefán og færðu honum blóm. Stefán mun fagna afmælisdeginum með fjölskyldu og vinum.

Akraneskaupstaður sendir Stefáni og fjölskyldu hans innilegar hamingjuóskir með afmælið og þakkir til Stefáns fyrir afar góð störf í þágu Akurnesinga, bæði sem lögregluþjónn og síðar yfirlögregluþjónn og í íþrótta-og félagsstarfi.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00