Fundur félags- og húsnæðismálaráðherra á Akranesi
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra kom í heimsókn á bæjarskrifstofu Akraness í morgun þann 14. janúar. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri tók á móti ráðherra ásamt Vilborgu Þórunni Guðbjartsdóttur formanni velferðar- og mannréttindaráðs, Helgu Gunnarsdóttur setts sviðsstjóra velferðar- og mannréttindasviðs, Sveinborgu Kristjánsdóttur félagsmálastjóra og Ingibjörgu Gunnarsdóttur yfirfélagsráðgjafa.
Með ráðherra í för voru Matthías Imsland aðstoðarmaður ráðherra og Elsa Lára Arnardóttir þingmaður. Markmiðið með heimsókn ráðherra er að fræðast um framkvæmd félagsþjónustu hjá sveitarfélögunum og kynna hugmyndir ráðherra um nýja stjórnsýslustofnun fyrir málefni fatlaðra og barnavernd. Ráðherra fékk kynningu á helstu verkefnum Akraneskaupstaðar á þessu sviði og góðar umræður sköpuðust um einstaka málaflokka.
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er mjög dýrmætt fyrir sveitarfélögin að fá heimsóknir af þessum toga frá ráðherra þar sem hægt er að ræða við hana milliliðalaust um þau málefni sem brenna mest á stjórnendum.