Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun fyrir 513 milljónir á árinu 2016
Bæjarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisráðs um endurskoðaða fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun á fundi sínum þann 10. maí síðastliðinn. Áætlunin var upphaflega samþykkt í desember en aðkallandi verkefni eins og fjölgun skólastofa við Grundaskóla og endurnýjun grasvalla við bæði Grundaskóla og Brekkubæjarskóla gerði það að verkum að áætlunin var tekin upp og auknu fjármagni bætt í hana. Alls er um að ræða 513 milljónir króna sem skiptast í 443 milljónir í fjárfestingar og 70 milljónir í framkvæmdir.
Stærstu einstöku verkefnin á árinu 2016 eru endurbætur við Jaðarsbakkalaugina og vinna við Sementsreitinn. Um er að ræða endurnýjun á pottasvæði við sundlaugina, yfirborði og girðingu en á næsta ári verða síðan rennibrautirnar teknar fyrir. Verkið verður boðið út í byrjun júní en framkvæmdir hefjast í sumarlok. Þá verður einnig boðin út framkvæmd við heita laug í grjótgarðinum við Langasand en það verkefni hefur verið í undirbúningi í töluverðan tíma. Við slit á svokölluðum Bræðrapartssjóði í ársbyrjun 2014 var 10 milljónum ánafnað til Akraneskaupstaðar til að byggja upp heita laug sem skyldi bera nafnið Guðlaug. Það voru ættingjar fyrrum ábúenda að Bræðraparti sem afhentu kaupstaðnum þessa fjárhæð en einnig voru settar 10 milljónir í Breiðina og sambærilegt fjármagn til gerðar sýningar á Byggðasafninu.
Þá er unnið að skipulagi Sementsreitsins og stefnt að því að sú vinna klárist í lok þessa árs. Í skipulagslýsingu sem hefur verið í kynningu er lagt til að ýmis mannvirki verði rifin, svo sem Efnisgeymslan svokallaða og Kvarnarhúsið. Niðurrif hefst í lok árs og verður framhaldið á árinu 2017.
Nú þegar hefur verið byrjað á framkvæmdum við Vesturgötu þar sem bæði er búið að malbika neðsta hluta götunnar og fræsa götuna frá Merkigerði að Stillholti. Fræsingin var gerð með tilliti til þess að gatan gæti staðið ein og sér í einhvern tíma eftir fræsingu, á meðan verið væri að finna ástæður þess að önnur akreinin væri sigin og skemmd. Verið er að rannsaka jarðveginn með aðstoð verkfræðistofu og malbikun fer ekki fram fyrr en að þeirri vinnu lokinni. Auk þess eru viðræður við Orkuveituna um endurnýjun lagna.
Á skipulags- og umhverfisviði er verið er að endurskoða allt gatna og stígakerfi Akraness í heild sinni og stefnt er að því að fimm ára áætlun um frekari viðhaldsaðgerðir á gatnakerfi kaupstaðarins liggi fyrir á árinu. Horft verður samhliða á ástand gatnakerfisins, umferðaröryggi, aðgengi fyrir fatlaða og stígakerfið. Í stígakerfinu verði meðal annars horft til tenginga milli bæjarhluta og opinna svæða. Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er gatnakerfið víða mjög skemmt og liggur nærri að það þurfi að endurnýja um 20 kílómetra. Kostnaður við hvern kílómeter af fræsingu og malbikun hleypur á tugum milljóna króna. Það er hinsvegar nauðsynlegt að fara í endurbætur og samhliða þarf að vinna með Orkuveitunni að áætlun um endurnýjun lagna þannig að röskun verði sem minnst fyrir íbúa.
Ýmis smærri verkefni er að finna í framkvæmdaáætlun, svo sem gerð útskots fyrir strætisvagna, malbikun á bílastæði í Jörundarholti, framkvæmdir á skólalóðum, í kirkjugarðinum og kaup á bíl fyrir Höfða sem sinnir meðal annars ferðaþjónustu fatlaðra.