Formleg opnun nýs tengivirkis á Akranesi
Í gær var nýtt tengivirki á Akranesi tekið formlega í notkun. Ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ávarpaði gesti af þessu tilefni ásamt Ingu Dóru Hrólfsdóttur framkvæmdastjóra Veitna, Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets og Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra á Akranesi. Nýja tengivirkið er staðsett við Smiðjuvelli 24 en gamla tengivirkið var á svæði sem nú hefur verið skipulagt sem íbúðarhverfi.
Byggingarframkvæmdir voru boðnar út 2014 og var samið við ÍAV um byggingu hússins og hófust framkvæmdir haustið 2014. Uppsetning á rafbúnaði hófst hausti 2015 og húsið var fullklárað vorið 2016. Byggingin sem er um 1150 fm er 70% í eigu Veitna og 30% í eigu Landsnets. Rafmagn kemur til stöðvarinnar frá Brennimel og frá Andakíl eftir flutningskerfi Landsnets og við hana tengjast 45 dreifistöðvar (spennistöðvar), staðsettar vítt og breitt um bæinn.
Hönnun hússins var í höndum VSÓ Ráðgjafar og Stúdíó Strik Arkitekta. Verkfræðistofan Efla sá um verkeftirlitið og byggingastjórnun. Orkuvirki, framleiðandi 12 kV rofbúnaðarins, sá um uppsetningu og prófanir. Aðrir verktakar sem komu að byggingunni voru RST Net, Þjótandi, NKT, Verkís, Lota, Landhönnun og Rafskoðun.
Í máli ráðherra kom fram að nýja tengivirkið auki öryggi orkuafhendingar á svæðinu og bæti aðgang viðskiptavina að rafmagni. Einnig kom fram að með nýja tengivirkinu yrði staðan á Akranesi eins og best gerist á landinu og tækifæri til orkuskipta bæði í samgöngum og í atvinnulífinu. Samhliða byggingu tengivirkisins uppfærðu veitur dreifikerfið og gerðu endurbætur. Akraneskaupstaður gerði samning við Orkuveitu Reykjavíkur um flutning á tengivirki árið 2007 og var markmiðið að rýma til fyrir nýrri íbúabyggð austan við Þjóðbraut og að stækka og auka flutningsgetuna. Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2009 var framkvæmdum frestað, bæði vegna fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og Akraneskaupstaðar en bærinn greiðir rúmar 200 milljónir fyrir framkvæmdina að núvirði.