Frístundamiðstöðin við golfvöllinn hefur fengið nafnið Garðavellir
Nýja frístundamiðstöðin við golfvöllinn á Akranesi hefur fengið nafnið Garðavellir. Nafnið var opinberað á aðalfundi stjórnar Leynis þann 10. desember síðastliðinn. Í lok september fóru Akraneskaupstaður og Leynir í samstarf og óskuðu eftir hugmyndum íbúa um nafn á miðstöðinni. Margar tillögur bárust en þó aðeins ein um nafnið Garðavellir en það var Ólafur Grétar Ólafsson félagsmaður í Leyni sem átti þá hugmynd.
Húsnæðið sem um ræðir var vígt með formlegum hætti síðastliðið vor og hefur húsið notið mikilla vinsælda á þessum stutta tíma sem það hefur verið í notkun. Það er mjög vinsælt fyrir ráðstefnur, fundarhöld, veislur og viðburði sem og einnig mikið notað af íbúum og öðrum gestum, ekki bara í tengslum við golfið heldur einnig til samverustunda en Galito Bistro hefur verið með veitingastarfsemi í hluta húsnæðisins frá opnun.