Fara í efni  

Fundur Akraneskaupstaðar með forsvarsmönnum Sementsverksmiðjunnar vegna óhapps

Sementssílóin.
Sementssílóin.

Í gær þann 11. janúar 2021 komu Gunnar Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar og Þorsteinn Víglundsson stjórnarformaður Sementsverksmiðjunnar á sameiginlegan fund bæjarráðs og skipulags- og umhverfisráðs og gerðu grein fyrir málavöxtum, ástæðum óhappsins, viðbrögðum, úrvinnslu og aðgerðum Sementsverksmiðjunnar í framhaldinu.

Um mannleg mistök var að ræða sem þeir, f.h. Sementsverksmiðjunnar, hörmuðu og líta mjög alvarlegum augum. Þeir vildu sérstaklega koma á framfæri þökkum til Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar fyrir þeirra viðbrögð og veitta aðstoð í kjölfar óhappsins sem og til þeirra fyrirtækja á Akranesi sem komið hafa að úrvinnslu málsins í framhaldinu. Jafnframt þökkuðu þeir fyrir að eiga kost á að koma á fund með bæjarfulltrúum til að gert grein fyrir sjónarmiðum fyrirtækisins og þeim ráðstöfunum sem fyrirtækið hafði þegar ráðist í sem og þeim ráðstöfunum sem fyrirhugaðar væru á næstunni.

Í kjölfar óhappsins hefur Sementsverksmiðjan gripið til nokkurra ráðstafanna og undirbýr frekari aðgerðir sem eru m.a.:

  • Viðbragðsáætlun Sementsverksmiðjunnar vegna rykmengunar hefur verið uppfærð svo bregðast megi fyrr við ef slíkt óhapp kæmi fyrir að nýju.
  • Stofnað hefur verið verkefni í vottuðu gæðakerfi Sementsverksmiðjunnar til að tryggja að mengunaróhappið geti ekki endurtekið sig og felur það í sér m.a. eftirtaldar aðgerðir:
    • Settar verða upp nýjar myndavélar svo starfsmenn sem sem vakta móttöku sementsins hafi betri yfirsýn yfir hvernig dæling fer fram.
    • Hljóðviðvörun verður bætt við viðvörunarljós sem lætur vita þegar stöðva ber dælingu þegar fylling hefur náð tiltekinni hæð í sílóunum.
    • Lok á mælistútum hefur nú verið boltað niður svo það haldist niðri við yfirþrýsting en upp um þetta lok fór sementið út í andrúmsloftið.
    • Búnaður verður yfirfarinn af forvarnarfulltrúa hjá tryggingarfélagi Sementsverksmiðjunnar.

Jafnframt var óskað eftir nánari upplýsingum um hvernig þrif á húsum verður framhaldið þegar veður leyfir en tryggingarfélag Sementsverksmiðjunnar ver með yfirstjórn á hreinsunaraðgerðum sama dag og óhappið varð. Mikilvægt er að fá skýra mynd af því hvaða hús verða þrifin til að afstýra mögulegum skemmdum en einnig hefur komið fram að á annað hundrað bílar hafi verið þrifnir.

Ennfremur kom fram að Sementsverksmiðjan hefur fundað með Umhverfisstofnun sem fer með eftirlit með starfseminni og stofnuninni verið afhent gögn vegna óhappsins en á næstu vikum mun eftirlitið færast til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.

Meðfylgjandi er slóð á fundargerð bæjarráðs en þar var m.a. bókað eftirfarandi:

„Bæjarráð lítur óhappið alvarlegum augum en telur viðbrögð forsvarsmanna Sementsverksmiðjunnar til marks um að fyrirtækið líti málið sömu augum. Bæjarráð leggur áherslu á að þeir aðilar, íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja, sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna óhappsins, fái viðunandi úrlausn sinna mála sem og að fyrirtækið upplýsi sem best og sem víðast þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til í framhaldinu til að lágmarka sem mest áhættuna af því að svona nokkuð geti endurtekið sig."


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00