Hallbera fjallkona á Akranesi
Glæsileg hátíðardagskrá fyrir alla fjölskylduna fer fram á Akranesi í dag. Í morgun var bæjarbúum boðið upp á þjóðlega dagskrá við Byggðasafnið í Görðum og eftir hádegi var skrúðganga sem endaði á Akratorgi og við tók fjölbreytt dagskrá sem stendur enn yfir. Fjallkona Akurnesinga var knattspyrnudrottningin Hallbera Guðný Gísladóttir sem flutti ljóð Matthíasar Johannessen, Ísland í draumi þínum. Hallbera, sem er borin og barnfædd Skagakona, skartaði bláum þjóðbúningi en búningurinn var saumaður fyrir Akraneskaupstað árið 1974. Búningurinn var hannaður af Dýrleif Ármann með ömmu Hallberu, Bjarnfríði Leósdóttur, sem fyrirmynd. Fyrst til að klæðast honum á 17. júní var Hrönn Ríkharðsdóttir sem hélt einmitt hátíðarræðu á Akratorgi í dag. Hallbera fæddist á Akranesi 1986 og ólst þar upp. Hún gekk í Grundaskóla og síðar Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Foreldrar Hallberu eru Gísli Gíslason forstjóri Faxaflóahafna og fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi og Hallbera Jóhannesdóttir rithöfundur og kennari. ,,Ég er vön að skarta bláum búningi en þessi var óvenjulegur“ segir Hallbera sem hefur leikið með landsliði Íslands frá 2008 og hefur að undanförnu vakið athygli á jafnréttismálum í knattspyrnuheiminum.
Hanna Þóra Guðbrandsdóttir flutti þjóðsöng Íslands við undirleik Birgis Þórissonar. Síðar í dag verður bæjarlistamaður Akraness 2016 heiðraður og fjöldi ungra tónlistarmanna og dansara munu stíga á svið. Meðal annars mun ung tónlistarkona, Inga María Hjartardóttir frumflytja frumsamið lag. Þá mun Lína langsokkur skemmta krökkunum eins og henni einni er lagið.
Í kvöld fara fram tvennir tónleikar í Stúkuhúsinu sem er staðsett á Byggðasafninu í Görðum. Dúóið Travel Tunes Iceland mun flytja íslensk þjóðlög og sitthvað fleira skemmtilegt.