Heiðursborgarar á Akranesi - endurskoðun reglna
Á lokuðum fundi bæjarstjórnar þann 28. nóvember sl. var til umræðu og e.a. ákvörðun um hvort rétt væri að fjarlægja nafn Sr. Friðriki Friðrikssyni, stofnanda KFUM og KFUK, af lista yfir heiðursborgara á Akranesi, en þann titil veitti bæjarstjórn Akraness honum árið 1947 í tilefni þess að þá voru 35 ár frá stofnun KFUM á Akranesi, en sr. Friðrik var um stuttan tíma starfandi prestur á Akranesi.
Tilefni umfjöllunar bæjarstjórnar Akraness var að í nýútkominni bók Guðmundar Magnússonar um ævi sr. Friðriks Friðrikssonar, hefur komið fram vitnisburður manns um að sr. Friðrik hafi leitað á hann. Auk þess hefur fréttaflutningur um fleiri tilvik komið fram.
Bæjarstjórn Akraness er brugðið við að heyra frásögn um að sr. Friðrik hafi brugðist trausti barna og með framferði sínu svert titil heiðursborgara Akraness. Bæjarstjórn Akraness vísaði til bæjarráðs að yfirfara reglur um val heiðursborgara og kanna hvernig slíkt val væri endurskoðað.
Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 30. nóvember sl. og þar bókað eftirfarandi:
Bæjarráð felur bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins og vinni drög að endurskoðuðum reglum um val og útnefningu heiðursborgara Akraness. Mikilvægt er að þær reglur gefi bæjarfulltrúum m.a. svigrúm til endurskoðunar ákvörðunar skapist einhverjar þær aðstæður sem kollvarpa ímynd þess einstaklings sem í hlut á hverju sinni.
Málið komi að nýju til bæjarráðs að lokinni úrvinnslu.
F.h. Akraneskaupstaðar
_______________________
Haraldur Benediktsson,
bæjarstjóri