Hjónavígsla í Akranesvita
Fyrsta hjónavígslan í Akranesvita fór fram þann 18. apríl síðastliðinn. Það voru þau Tanja og Markus frá Þýskalandi sem létu gefa sig saman í fjörunni hjá Vitanum og sá Sýslumaðurinn á Vesturlandi um vígsluna. Veður var afar gott og aðstæður nánast fullkomnar.
Þetta er í fyrsta skiptið sem Tanja og Markus heimsækja Ísland og lágu leiðir þeirra að skoða landið að lokinni athöfn. Ferðaþjónustufyrirtækið Katla Travel sá um skipulag og undirbúning ferðarinnar fyrir hjónin en Katla Travel hefur meðal annars verið að auglýsa Akranesvita sem tilvalinn stað fyrir viðburði eins og hjónavígslur. Fyrsta brúðkaupið sem Katla Travel skipulagði á Íslandi var árið 2008 og frá þeim tíma eru um það bil 15 til 20 hjónavígslur á ári, flest allt hjá erlendum ferðamönnum. „Ég vona að þetta verði árlegur viðburður hjá okkur hér í vitanum og til lengri tíma jafnvel oft á ári. Vitinn og umhverfið í kring er hreint út sagt frábært val fyrir svona uppákomur“ er haft eftir Hilmari Sigvaldasyni vitaverði en honum var boðið að vera viðstaddur þegar vígslan fór fram.
Akraneskaupstaður sendir þeim hjónum innilegar hamingjuóskir með daginn.