ÍATV hljóta menningarverðlaun Akraness 2024
Menningar- og listahátíðin Vökudagar voru settir í 22. skipti í Tónlistarskólanum á Akranesi í gær og við það tilefni voru menningarverðlaun Akraness 2024 afhent.
Menningarverðlaun Akraness eru nú afhent í 18 sinn á Vökudögum.
Á bakvið ÍATV stendur öflugur hópur sjálfboðaliða sem heldur úti og sendir út á YouTube. Fyrsta útsending ÍATV var 23.október 2015 fögnuðu þeir því 9 ára afmæli í gær. Forsagan var sú að farið var í útsendingar á I-pad af heimaleikjum hjá körfuknattleiksfélaginu hjá ÍA í nóvember 2015. Íþróttabandalag Akraness kaupir síðan útsendingartölvu og hófust þá útsendingar undir nafni ÍATV á YouTube. Síðan þá hefur stöðin vaxið töluvert með metnaðarfullum útsendingum frá margvíslegum viðburðum, mest frá meistaraflokksleikjum Knattspyrnufélags ÍA í karla- og kvennaflokki, sem og leikjum Knattspyrnufélagsins Kára. ÍATV hefur þó ekki eingöngu sent út fótboltaleiki heldur hafa þeir sýnt frá körfubolta, fimleikum, golfi, keilu, klifri, badminton, amerískan fótbolta, Norðurálsmótinu og val á íþróttamanni ársins hjá ÍA.
ÍATV hefur teygt út armana og sýnt leiki í Unglingadeild Knattspyrnusambands Evrópu, Inkasso-deildinni, Lengju-deildinni, Mjólkurbikarnum, Fótbolta.net-mótinu og sundmótum í Reykjavík. Áhorfendur stöðvarinnar einskorðast ekki við Ísland heldur nýtur fólk um allan heim útsendinga þeirra, þar á meðal foreldrar ungs fólks sem hingað koma og spila með ÍA.
Jafnframt má nefna fimm þátta skemmtiþáttaröðina Að koma saman er bannað sem gerð var 2020 í Covid, spennuþrungna maraþonútsendingu frá sprengingu og fellingu sementsstrompsins 2019 – sem horft hefur verið á um 54 þúsund sinnum og myndklippu sem fór á flakk um heiminn af glæsimarki Arnars Más Guðjónssonar sumarið 2018, sem tugir milljóna hafa notið. Allar útsendingar, upptökur og samantektir ÍATV eru aðgengilegar á iatv.is og YouTube og eru aðgengilegar öllu fólki, án endurgjalds.
ÍATV veitir virkilega góða og verðmæta þjónustu við stuðningsmenn íþróttafélaganna og áhugasamt fólk um íþróttir, sér í lagi á Covid-tímum þegar stuðningsmenn gátu ekki mætt á völlinn. ÍATV hefur staðið framarlega sem streymisveita og vaxið gríðarlega hvað varðar gæði útsendinga og eru þeir alltaf að bæta við sig búnaði og þekkingu. Þekkingunni miðla þeir einnig áfram til áhugasamra ungmenna sem fá að spreyta sig á sviði tækni og útsendingamála. það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi vexti netsjónvarpsstöðvarinnar.
ÍATV vilja sýna beint frá íþróttalífinu í sínu nærumhverfi og um leið að skrásetja íþróttasöguna sem er virkilega dýrmætt fyrir bæjarfélagið. Eiga þeir viðurkenningu skilið fyrir sín mikilvægu sjálfboðastörf.
ÍATV unnu fjölmiðlaverðlaun KSÍ fyrir árið 2021 vegna vefútsendinga frá knattspyrnuleikjum.
Menningar- og safnanefnd og Akraneskaupstaður telja að þessi viðurkenning sé tímabær og í takt við áherslur menningarstefnu Akraneskaupstaðar.
Við óskum ÍATV kærlega til hamingju með menningarverðlaun Akraness árið 2024.