Írskir dagar hefjast í dag
Í dag kl. 14:00 verða Írskir dagar settir í 21. sinn. Setningin verður að þessu sinni í skrúðgarðinum við Suðurgötu með þátttöku leikskólabarna á Akranesi og Gunna og Felix.
Að þessu sinni er dagskráin frábrugðin dagskrá síðustu ára en það er gert til að tryggja að farið sé eftir fyrirmælum sóttvarnayfirvalda. Í síðustu viku var haldinn samráðsfundur þar sem viðbragðsaðilar á Akranesi og umdæmislæknir sóttvarna á Vesturlandi voru meðal viðstaddra. Á fundinum var farið yfir drög að dagskrá og metið hvort ástæða væri til að gera breytingar á henni. Í auglýstri dagskrá er miðað við að engir dagskrárliðir séu með yfir 500 einstaklinga sem eru fæddir á árinu 2004 eða fyrr samankomna. Einn fjölmennasti viðburðurinn síðustu ár hefur verið sýning leikhópsins Lottu í Garðalundi. Í ár verða tvær sýningar í boði og þurfa einstaklingar sem eru fæddir árið 2004 að sækja sér miða fyrirfram svo hægt sé að virða fjöldatakmarkanir. Miðarnir eru ókeypis og þá má nálgast á Bókasafni Akraness milli kl. 10-18 í dag og á morgun föstudag.
Vegna aðstæðna getur þurft að gera breytingar á dagskrá með skömmum fyrirvara. Nýjustu upplýsingar verður ávallt að finna á Fésbókarsíðu Írskra daga og á skagalif.is en þar er viðburður með dagskrá fyrir hvern dag.
Við tökum undir orð Lögreglunnar á Vesturlandi og biðlum til allra að fara varlega og hugsa um eigin sóttvarnir. Við erum öll almannavarnir!