Keppnin um Rauðhærðasta Íslendinginn - sú allra vinsælasta á Írskum dögum
Að venju er hin árlega keppni um Rauðhærðasta Íslendinginn haldin á Írskum dögum á Akranesi sem fram fer dagana 30. júní til 3. júlí og eru rauðhærðir gestir sérstaklega velkomnir á hátíðina. Skráning í keppnina fer fram á netfangið irskirdagar@akranes.is. Sérstök dómnefnd skipuð fagfólki sker úr um rauðasta hárið og þar að leiðandi írskasta útlitið. Til mikils er að vinna því sú eða sá sem hlýtur titilinn Rauðhærðasti Íslendingurinn fær í verðlaun ferð til tvo til Dublinar í boði Gaman Ferða. Skilyrði til þátttöku er að viðkomandi hafi rautt hár af náttúrunnar hendi. Einnig er keppt um titilinn Efnilegasti rauðhærði Íslendingurinn en sá titill fer gjarnan til yngstu kynslóðarinnar.
Undirbúningur hátíðarinnar er í fullum gangi en Írskir dagar á Akranesi eru nú haldnir í 17. sinn. Dagskráin er fjölbreytt og miðuð að fjölskyldunni þannig að allir aldurshópar eiga að geta fundið eitthvað við hæfi.