Kynningarefni um Akranes verður í markaðskerfi Icelandair
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 26. mars sl. að ganga til samninga við Icelandair um gerð og birtingu á kynningarefni um Akranes í markaðskerfi Icelandair. Um er að ræða kynningu í sjónvarpsþáttunum Unique Iceland sem eru sýndir um borð í flugvélum Icelandair, kynningu á vefsíðu og fréttablaði Icelandair. Samningurinn gildir til þriggja ára og eru árlegar greiðslur kr. 500.000.
Icelandair hefur framleitt sjónvarpsþættina Unique Iceland síðan árið 2011 í samráði við markaðsskrifstofur og ferðaþjónustuaðila á Íslandi. Þættinum er fyrst og fremst ætlað að selja áfangastaðinn Ísland og um leið að skemmta, fræða og upplýsa ferðamenn um land og þjóð. Samningurinn kveður m.a. á um að aðilar skuldbinda sig að útbúa að lágmarki 60 sekúndna innslag um Akranes til birtingar í þættinum og er stefnt að því að tökur á nýju efni um Vesturland hefjist um miðjan apríl og verði kynningarefnið til sýningar í afþreyingarkerfi um borð í vélum Icelandair frá og með 1. júní næstkomandi.
Bæjarráð hvatti til þess að ferðaþjónustufyrirtæki á Akranesi verði boðin þátttaka við gerð auglýsinganna og mun ferðamálafulltrúi Akraneskaupstaðar hafa samband við þau eftir að samningur hefur verið undirritaður.