Langisandur viðurkenndur sem Bláfánaströnd í tólfta skiptið
Bláfánanum verður flaggað í 12 skiptið á Langasandi þann 29. maí 2024 klukkan 10:00. Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf í umhverfismálum. Meginmarkmið verkefnisins er að vernda lífríki haf- og strandsvæða, draga úr umhverfisáhrifum, bæta öryggi og efla umhverfisvitund. Bláfáninn er tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum og bætir ímynd og ásýnd rekstraraðila þar sem hann blaktir við hún. Bláfáninn er veittur þeim baðströndum sem uppfylla ákveðin skilyrði sem lúta að eftirfarandi þáttum; umhverfisfræðsla og upplýsingagjöf, vatnsgæði, umhverfisstjórnun, öryggi og þjónusta. Vottunarstofan Tún er umsjónaraðili Bláfánans á Íslandi, hægt er að finna frekari upplýsingar um Bláfánann hér.
Þess má geta að á nýrri fjörusíðu á www.skagalif.is má finna upplýsingar um Langasand en vefurinn er hannaður í tilefni af Barnamenningarhátíð 2024.
Við hvetjum öll áhugasöm til að mæta og fagna með okkur við fánastöngina þegar Bláfánanum verður flaggað við Langasandinn okkar góða.