Lýðheilsugöngur í september á Akranesi - Komdu út að ganga!
Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands (FÍ) eru liður í afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga í septembermánuði og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði. Bæklingi um verkefnið hefur þegar verið dreift inná öll heimili á landinu. Hefjast allar göngurnar kl. 18:00 og taka u.þ.b. 60-90 mín.
Á Akranesi verður dagskráin á þessa leið:
Miðvikudaginn 6. september
Lagt af stað frá Aggapalli á Jaðarsbökkum kl. 18:00 og gengið að Garðalundi með viðkomu á Byggðasafninu. Fararstjóri er Sindri Birgisson umhverfisstjóri hjá Akraneskaupstað. Jón Allansson deildarstjóri minjavörslu tekur á móti hópnum á safninu og leiðir hópinn um útisvæði safnsins. Að því loknu verður lagt af stað í Garðalund þar sem Sindri fræðir hópinn um sögu svæðisins en Garðalundur hefur verið vinsælt útivistarsvæði Skagamanna um árabil.
Miðvikudaginn 13. september
Lagt af stað frá bílaplaninu við Akrafjall kl. 18:00 og gengið að Guðfinnuþúfu. Náttúrufegurðarinnar notið þar sem víðsýni er mikið af tindinum í allar áttir. Fararstjórar eru Anna Bjarnadóttir og Ólafur Adolfsson.
Miðvikudaginn 20. september
Lagt af stað frá Bíóhöllinni kl. 18:00 og gengið eftir strandlengjunni út að Elínarhöfða. Upplagt að bjóða vinum og samstarfsfélögum með, reyna að virkja sem flesta og eignast þannig nýja gönguvini. Fararstjórar eru Hallbera Jóhannesdóttir og Anna Bjarnadóttir.
Miðvikudaginn 27.september
Lagt af stað frá bílastæðinu við Akrafjall kl 18:00 og gengið áleiðis að flugvélarflakinu í fjallinu. Fararstjóri er Eydís Líndal Finnbogadóttir.
Muna að klæða okkur eftir veðri
Fjölmennum og höfum gaman!
Allir sem taka þátt í Lýðheilsugöngum geta skráð sig í göngur á vef verkefnisins keppa um leið um veglega vinninga. Skráning fer fram hér:http://lydheilsa.fi.is/