Málþing um skjánotkun
Fimmtudaginn 23. mars síðastliðinn stóð félagsmiðstöðin Arnardalur, í samvinnu við Brekkubæjar- og Grundaskóla, fyrir málþingi um skjánotkun í frítíma. Með skjánotkun var þá átt við notkun á tölvu, sjónvarpi og snjallsíma. Þátttakendur voru á aldrinum 12-16 ára úr báðum skólum, alls 36 talsins.
Á þinginu var þátttakendum skipt upp í hópa þar sem hver og einn átti að finna kosti og galla við skjánotkun. Að því loknu áttu allir að koma með hugmyndir að lausnum á göllunum. Þá settu hóparnir fram tímaviðmið um skjánotkun, þ.e. hversu langan tíma á dag mismunandi aldurshópar ættu að vera fyrir framan skjá. Að lokum komu hóparnir með hugmyndir um leikreglur og/eða góða siði þegar kemur að skjánotkun í frítíma.
Þingið var bæði fróðlegt og skemmtilegt og alveg ljóst að ungmennin hafa sterkar skoðanir. Þá var sérstaklega gaman að sjá hversu skynsöm þau eru. Niðurstöðurnar verða kunngjörðar um leið og búið er að vinna úr öllum gögnum.