Móttaka á hafnarsvæðinu kl. 14.00 í dag
Í tilefni af komu uppsjávartogarans Víkings AK 100 til heimahafnar á Akranesi verður haldin móttökuathöfn á Akraneshöfn í dag kl. 14.00. Þeir sem flytja ávörp eru Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda, Einar Guðfinnsson forseti Alþingis og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. Þá verða einnig tónlistaratriði og séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur mun blessa skipið og Steinunn Ósk gefa því nafn. Skipið verður opið fyrir almenning frá kl. 16.30 í dag. Víkingur Ak 100 er annað skip HB Granda af fimm sem smíðað er á skipasmíðastöðinni Celiktrans í Istanbúl í Tyrklandi og er systurskip Venusar sem kom til landsins síðastliðið vor. Víkingur og Venus eru uppsjávarskip sem munu sjá um að veiða þann kvóta sem Ingunn AK, Faxi og Lundi sáu áður um að veiða. Víkingur tekur allt að 2. 800 tonnum af afla.