Móttaka flóttafólks frá Úkraínu hefur gengið vel
Frá því ákveðið var að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu í mars síðastliðnum hefur undirbúningur fyrir móttökuna verið í fullum gangi. Margir sjálfboðaliðar hafa komið að ýmsum þáttum undirbúningsins og án þeirra krafta auk samstöðu í samfélaginu gengi svona verkefni einfaldlega ekki upp. Þeim sem hafa aðstoðað með einhverjum hætti eru því færðar bestu þakkir. Nú eru tvær fjölskyldur komnar á Akranes og eru að koma sér fyrir á nýjum heimilum. Þær hafa lýst ánægju sinni með móttökurnar og hafa haft á orði að Akranes sé fallegur staður og góður staður fyrir börn. Um er að ræða vel menntað fólk með ung börn sem hefur fullan hug á að taka þátt í atvinnulífi og vera virkir samfélagsþegnar og bjóðum við þau auðvitað hjartanlega velkomin.
Von er á sex fjölskyldum til viðbótar og er ráðgert að þær hafi flutt hingað og komið sér fyrir í lok mánaðarins. Við hvetjum áfram þá sem hafa áhuga á að leggja hönd á plóg að setja sig í samband, en hægt er að senda tölvupóst á netfangið velferd@akranes.is