Ný Kirkjubraut - Opin vinnustofa
Laugardaginn 24. maí verður haldin opin vinnustofa á bókasafni Akraness þar sem íbúum gefst einstakt tækifæri til að koma saman, skiptast á hugmyndum og hafa áhrif á þróun almenningssvæða í bænum. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir samræður um framtíð bæjarins og miðla hugmyndum fyrir nýtingu opinna svæða.
Hvaða breytingar myndu gera bæinn að enn betri stað? Viltu sjá jurtagarð, leikvöll, listaverk eða eitthvað allt annað? Á vinnustofunni gefst tækifæri til að teikna, skrifa og ræða hugmyndir, fá innsýn frá fagaðilum og njóta líflegs umræðuvettvangs með öðrum íbúum.
Stúdíó Jæja og Akraneskaupstaður leiða vinnustofuna þar sem verður í boði fjölbreytt fræðsla um arkitektúr, verkefni fyrir alla aldurshópa og opið, jákvætt og skapandi umhverfi. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku allra aldurshópa og því verður boðið upp á fjölskylduvæna vinnustofu þar sem bæði börn og fullorðnir geta unnið saman að hugmyndum sínum og komið þeim til bæjarfulltrúa.