Nýr skólastjóri Tónlistarskóla Akraness ráðinn
Bæjarráð Akraness samþykkti á fundi sínum þann 12. júlí síðastliðinn að ráða Jónínu Ernu Arnardóttur í starf skólastjóra Tónlistarskóla Akraness að fenginni tillögu skóla- og frístundaráðs. Staðan var auglýst í byrjun júní og voru tíu umsækjendur sem sóttu um stöðuna, einn umsækjandi dró umsókn sína tilbaka í ráðningarferlinu.
Jónína Erna hefur verið farsæll tónlistarkennari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar frá árinu 1996 og síðustu ár gengt stöðu deildarstjóra við skólann. Auk þess hefur Jónína kennt tónlist í Noregi í fjögur ár. Hún hefur verið virkur píanóleikari og komið fram á ýmsum tónleikum á Íslandi, einnig í Noregi, Danmörku, Finnlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Jónína er einnig organisti og kórstjóri í Stafholtssókn.
Jónína er með burtfara- og kennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, Cand. Mag. próf frá Griegakademiunni í Bergen og lokið meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Jónína sat í sveitarstjórn Borgarbyggðar í átta ár, sat einnig í menningarnefnd Borgarbyggðar í átta ár og þar af fjögur ár sem formaður nefndarinnar. Hún var verkefnastjóri Borgfirðingarhátíðar í tvö ár. Stofnandi og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar IsNord í tíu ár. Þá hefur Jónína einnig setið í stjórn Snorrastofu, í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og í stjórn Faxaflóahafna.