Saga Klapparholts varðveitt
Fjölmennt var í Klapparholti þann 29. janúar síðastliðinn þegar nýtt skilti var vígt til heiðurs þeim hjónum, Guðmundi Guðjónssyni og Rafnhildi Árnadóttur fyrir þeirra einstöku vinnu að skipulagningu og ræktun svæðisins í Klapparholti. Það voru þau Árni Steinar og Guðrún Halla barnabarnabörn hjónanna sem klipptu á borðann. Börn þeirra hjóna, barnabörn og barnabarnabörn voru viðstödd athöfnina ásamt fulltrúum í skipulags- og umhverfisráði og bæjarráði, bæjarstjóra og garðyrkjustjóra.
Þann 27. október 1988 fengu Guðmundur og Rafnhildur afnot af landspildu á þessu svæði, Garðalandi við Klapparholt til uppgræðslu og gróðursetningar. Þau unnu af einstakri elju að skipulagningu og ræktun á þessu svæði sem er nú orðin myndarleg skógrækt, þeim og Akraneskaupstað til mikils sóma. Klapparholt verður ætíð tengt því góða ræktunarstarfi sem þau inntu af hendi en eftir 17 ára starf í skógrækt þá afhentu þau Guðmundur og Rafnhildur Akraneskaupstað svæðið til áframhaldandi ræktunar og umhirðu. Skiltið er reist til heiðurs þeim hjónum fyrir ötult og óeigingjarnt starf í þágu skógræktar og aukins fjölbreytileika í útivist.
Svæðið afmarkast af skurðum á þrjá vegu. Í vesturhluta er bílastæði og inngangur að svæðinu. Þar stendur stuðlabergssteinn sem Guðmundur lét reisa til minningar um upphaf skógræktar í Klapparholti. Innan svæðis eru göngustígar, grasflatir og gróðursvæði. Í vestari hluta svæðisins er tjörn römmuð inn af gróðri og lágri grasmön og lítið holt sem nefnist „Litla Klapparholt“. Í austurhluta svæðisins er brú sem tryggir aðkomu gangandi og hjólandi, sunnan þess eru skógræktarsvæði Brekkubæjarskóla og Grundaskóla. Helsta kennileiti er Klapparholtið sem stendur rétt fyrir miðju svæðis. Sögur fara af því að í holtinu sé huldufólksbyggð og álfakirkja, nefnd „Klapparholtskirkja“. Gróðurinn er margbreytilegur en helstu tegundir eru sitkagreni, stafafura, reynitré og birki. Auk þess má finna inn á milli þin, eik, hrossakastaníu, eplatré og fleira.