Samstarf um föngun kolefnis og nýtingu glatvarma
Í dag undirrituðu þau Álfheiður Ágústsdóttir frá Elkem, Gestur Pétursson frá Veitum, Edda Sif Pind Aradóttir frá CarbFix, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Ólafur Adolfsson stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga, viljayfirlýsingu um að vinna saman að fjölnýtingu þeirra efnisstrauma sem til staðar eru á Grundartangasvæðinu og fela í sér í fyrsta áfanga:
- Föngun kolefnis úr útblæstri iðnfyrirtækja á Grundartanga sem verður dælt niður í borholur á svæðinu, ásamt nýtingu glatvarma frá þeirri starfsemi til hitaveitu
- Markmið að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, efla orkuskipti og nýsköpun
- Nýting glatvarma frá starfsemi iðnfyrirtækja á Grundartanga til hitaveitu sem getur þjónað fyrirtækjum á iðnaðarsvæðinu og nálægum sveitarfélögum, Hvalfjarðarsveit og Akraneskaupstað og fyrirtækjum sem vilja nýta sér varmaorku í sinni starfsemi.
„Verkefnið sem unnið verður undir stjórn Þróunarfélags Grundartanga, fellur vel að loftslagsmarkmiðum Íslands en einnig að þróun í orkumálum og atvinnusköpun. Vonir standa til að verkefnið geti skapað umtalsverð verðmæti á komandi árum en það er hluti af uppbyggingu græns iðn- og auðlindaklasa á Grundartanga og munu niðurstöður þess nýtast á fleiri iðnaðarsvæðum á landinu.“ segir Ólafur
Edda Sif sagði Carbfix með mikinn byr í seglunum, sem væri afar ánægjulegt og nauðsynlegt þegar loftslagsváin gerir vart við sig með sífellt fjölbreyttari hætti. „Við höfum vart undan að svara óskum um samstarf víðsvegar um heiminn en það er gott að ráðast fyrst í þetta verkefni hér heima fyrir,“ segir Edda Sif.
Verkefnið er liður í því að gera Ísland að kolefnishlutlausu samfélagi, bæta orkunýtni, nýta umframorku í raforkukerfinu, minnka losun gróðurhúsalofttegunda, auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, efla orkuskipti, stuðla að grænni nýsköpun og efla rannsóknar- og þróunarstarf. Verkefnið snýr jafnframt að þróun nýrrar tækni með möguleikum á útflutningi á þeirri tækni til annarra landa.
Staðsetning verkefnisins á Grundartanga kemur til þar sem á því svæði er aðgangur að þeim efnisstraumum sem verkefnið þarfnast, þ.e. koldíoxíð og glatvarmi frá iðnaðarstarfsemi á svæðinu, gott aðgengi að endurnýjanlegri umfram raforku og afar góð hafnaraðstaða.
Vonir standa til þess að verkefnið styðji við áframhaldandi uppbyggingarskeið á Grundartanga sem grundvallað verði á nýsköpun, umhverfisvænum lausnum, verðmætasköpun og klasasamstarfi öflugra fyrirtækja, stofnana og opinberra aðila.