Lokið - Skipulags- og umhverfissvið Akraneskaupstaðar óskar eftir tilboðum í verkið: Fimleikahús á Akranesi - Búnaður
Nýtt fimleikahús er í byggingu á Akranesi og verður tekið í notkun í lok desember 2019. Verkefnið felst í því að útvega og setja upp fimleikabúnað tilbúinn til notkunar í nýju fimleikahúsi sem er í byggingu við Háholt, Brekkubæjarskóla á Akranesi. Um er að ræða að skaffa og setja upp fyrir fimleika ýmsan búnað í gryfjur sem er lyftanlegur að hluta, ásamt trampólínbraut (fasttrack) í gryfju. Einnig skal skaffa stærri og minni áhöld og tæki til þjálfunar fimleika ásamt fjaðrandi gólfdúk, rafdrifnum skilrúmstjöldum o.fl. Verktaki sem fær verkefnið mun þurfa að gera ráð fyrir og taka tillit til m.a. nágranna, umferð íbúa sem og annarra verktaka í og við framkvæmdasvæðið og sérstaklega mikilvægt er að verktaki taki tilliti til og lágmarki rask á skóla- og íþróttastarfi.
Um opið útboð er að ræða og er það því almennt útboð eins og lýst er í grein 1.2.2 í ÍST30. Útboð þetta er einnig auglýst á hinu evrópska efnahagssvæði (EES). Verkinu skal að fullu lokið 30. desember 2019.
Útboðsgögn verða afhent áhugasömum frá og með þriðjudeginum 7. maí 2019. Senda skal óskir um útboðsgögn á netfangið omar@vso.is. Tilboðum skal skilað í afgreiðslu bæjarskrifstofu Akranes, Stillholti 16-18, 1. hæð, eigi síðar en þriðjudaginn 11. júní 2019 kl.11:00 og þau opnuð að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.