Fara í efni  

SPRÆKIR SKAGAMENN: HEILSUEFLING Á EFRI ÁRUM

Nú á vordögum var tekið fyrsta skref í átt að heilsueflingu fyrir eldri íbúa á Akranesi þegar fyrsti hópur byrjaði í styrktarþjálfun á vegum Akraneskaupstaðar í samstarfi við ÍA. Styrktarþjálfunin fer fram einu sinni í viku í húsnæði Sjúkraþjálfunar Akraness undir handleiðslu íþróttafræðinga og er um tilraunaverkefni að ræða fyrst um sinn.

Starfshópur um stefnumótun í öldrunarmálum á vegum Akraneskaupstaðar hefur unnið hörðum höndum við að koma heilsueflingarhluta stefnunnar af stað síðastliðið ár og gaman sjá verkefnið nú vera að raungerast.

Stefnt er að því að hefja verkefnið af fullum krafti í haust með fjölbreyttri dagskrá fyrir einstaklinga á besta aldri. Dagskráin mun þá innihalda æfingar sem meðal annars bæta styrk, jafnvægi og liðleika. Að auki verður lagt upp með að bjóða reglulega upp á fræðslu til frekari heilsueflingar og forvarna. Þátttakendur fá þá tækifæri til að stunda hreyfingu undir handleiðslu reyndra fagaðila og æfa í frábærri aðstöðu á vegum ÍA. Helsta markmið með verkefninu er að stuðla að aukinni þátttöku og bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu íbúa sem eru að undirbúa sig og leggja inn fyrir góð efri ár á Akranesi.

Um er að ræða virkilega spennandi samstarfsverkefni sem vert er að fylgjast með og mun vonandi stuðla að því að enn fleiri eldri íbúar komi til með að stunda reglulega hreyfingu í góðum félagsskap þar sem bæði gleði og fagmennska verður við völd!


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00