Teymi dregin til þátttöku í hugmyndasamkeppni um Langasandssvæðið
Apríl Arkitekter, Kanon Arkitektar og Landmótun sf. ásamt Sei Stúdíó eru þau þrjú teymi sem taka þátt í hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðisins á Akranesi. Útdráttur fór fram þriðjudaginn 2. mars síðastliðinn í viðurvist votta. Alls voru fjórtán fagteymi sem sóttust eftir að taka þátt en eitt dró sig tilbaka áður en útdráttur fór fram.
Í teymi Apríl Arkitekta eru arkitektarnir Arna Mathiesen og Kjersti Hembre en þær hafa rekið Apríl Arkitekta í Noregi síðustu 18 árin. Stofan hefur nú stofnað útibú í Reykjavík og löng reynsla í skipulagi hverfa, oftar sem ekki í minni bæjarfélögum við hina löngu strandlengju Noregs mun vonandi koma að góðum notum við verkið. Í teyminu eru einnig Kristján Breiðfjörð Svavarsson landslagsarkitekt sem búsettur er á Svalbarða og rekur Svavarsson Design Lab og Kristín Anna Eyjólfsdóttir listakona sem hefur vatn að aðalviðfangsefni í verkum sínum. Þá mun Jón Þór Guðmundsson garðyrkjufræðingur sem hefur sérhæft sig í matjurtarækt við sjávarsíðuna á Akranesi vera teyminu innan handar.
Í teymi Kanon arkitekta eru Birkir Einarsson landslagsarkitekt FÍLA og Helga Bragadóttir arkitekt FAÍ ásamt öðrum starfsmönnum fyrirtækisins. Kanon arkitektar hafa starfað frá árinu 1994 við arkitektúr og skipulag og frá 2011 einnig við landslagsarkitektúr. Fyrirtækið veitir opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum arkitekta-, skipulags- og landslagsráðgjöf og þjónustu. Hjá Kanon arkitektum starfa arkitektar og landslagsarkitekt, samstillt sjö manna teymi fagfólks með fjölbreyttan bakgrunn og víðtæka þekkingu og reynslu á sínu sviði. Verkefnin eru við skipulag á öllum stigum, hönnun nýbygginga og endurbætur eldra húsnæðis, landslagshönnun, byggða- og húsakönnun ásamt margvíslegum nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Samhliða almennri starfsemi hefur fyrirtækið tekið þátt í mörgum samkeppnum og unnið til fjölda verðlauna.
Í teymi Landmótun og Sei Stúdíó eru Áslaug Traustadóttir landslagsarkitekt FÍLA, Jóhann Sindri Pétursson landslagsarkitekt FÍLA, Þorsteinn Már Ragnarsson með bakgrunn í umhverfisskipulagsfræði og tækniteiknari, Shruthi Basappa arkitekt FAÍ og Einar Hlér Einarsson MAA. Landmótun er teiknistofa landslagsarkitekta og skipulagsfræðinga sem hefur veitt alhliða ráðgjöf um skipulag og hönnun síðan 1994. Starfsmenn landmótunar hafa mikla reynslu af þverfaglegri vinnu og leggja metnað sinn í að eiga góð samskipti við sérfræðinga, hagsmunaðila og verkkaupa. Verkefni Landmótunar er að finna í öllum landshlutum á Íslandi auk þess sem fyritækið hefur unnið að verkefnum á Grænlandi í Færeyjum og Noregi. Sei Studio var stofnað árið 2015 af Einar Hlé Einarssyni og Shruthi Basappa. Sei er ung arkitektastofa sem starfar á mörkum hönnunar, arkitektúrs, rannsókna og kennslu. Stofan hefur sterkar rætur í verkefnum er varðar byggingar Íslands, sögu og þróun en hefur einnig sinnt kennslu og unnið við verkefni á Indlandi.
Akraneskaupstaður auglýsti forval vegna hugmyndasamkeppninnar þann 22. janúar síðastliðinn og var umsóknarfrestur til og með 15. febrúar. Markmiðið með samkeppninni er að fá hugmyndir um framtíðarskipulag svæðisins í heild sem tengir m.a. strandsvæði, skólasvæði, framtíðar uppbyggingarreit og hafnarsvæðið. Svæðið er um 35 hektarar að stærð og er stór hluti svæðisins innan hverfisverndar í gildandi aðalskipulagi. Það tekur yfir útivistarsvæði frá Leynisfjöru, Sólmundarhöfða, meðfram Langasandi að Faxabraut. Eftir svæðinu liggur strandstígur, íþróttasvæðið að Jaðarsbökkum, íbúðabyggð á Sólmundarhöfða, hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfði sem og fjölbýlishúsalóðir við Garðabraut, Höfðabraut og Jaðarsbraut.
Næstu skref eru að fullgera samkeppnislýsingu og hefur dómnefnd þegar hafið störf en í henni sitja fyrir hönd Akraneskaupstaðar, Ragnar B. Sæmundsson formaður skipulags- og umhverfisráðs, Ólafur Adolfsson aðalmaður í skipulags- og umhverfisráði og Halla Marta Árnadóttir skipulagsfulltrúi. Fulltrúar FÍLA eru Hermann Georg Gunnlaugsson landslagsarkitekt og skipulagsfræðingur, SFFÍ og Hildur Gunnlaugsdóttur arkitekt, AÍ. Verkefnastjóri samkeppninnar og ritari dómnefndar er Sædís Alexía Sigurmundsdóttir skrifstofustjóri og trúnaðarmaður dómnefndar er Ólafur Melsted landslagsarkitekt FÍLA.
Íbúasamráð um uppbyggingu á Langasandssvæðinu var framkvæmt í desember og janúar síðastliðinn og voru tæplega 350 manns sem gáfu sér tíma og svöruðu könnun sem Akraneskaupstaður gaf út. Þrír heppnir einstaklingar þau Baldur Ólafsson, Ásta Hrönn Jónsdóttir og Helga Guðný Jónsdóttir voru dregin úr potti og fengu þau gjafabréf á Galito í þátttökuverðlaun. Akraneskaupstaður sendir öllum þátttakendur kærar kveðjur fyrir þátttökuna. Niðurstöður könnunarinnar verða aðgengilegar fljótlega hér á heimasíðu Akraneskaupstaðar.