Þorgeir Hafsteinn Jónsson nýr fjármálastjóri Akraneskaupstaðar
Þorgeir Hafsteinn Jónsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Akraneskaupstaðar. Staðan var auglýst fyrr í haust og voru 22 umsækjendur um stöðuna. Þorgeir er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Þorgeir hefur margra ára reynslu í fjármálum, fjárfestingum og fyrirtækjarekstri. Hann hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Íslensks eldsneytis ehf., verið fjármálastjóri hjá fjárfestingar- og fasteignafélaginu Þórsgarði hf., verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf hjá Ernst & Young ehf. og sérfræðingur hjá Virðingu. Þorgeir tekur til starfa hjá Akraneskaupstað þann 1. desember næstkomandi. Staða fjármálastjóra var auglýst í kjölfar skipulagsbreytinga á stjórnsýslu- og fjármálasviði Akraneskaupstaðar. Ákveðið var að styrkja fjármáladeildina með tilfærslu verkefna innan bæjarskrifstofunnar. Andrés Ólafsson sem hefur gegnt stöðu fjármálastjóra mun nú taka við starfi verkefnastjóra á stjórnsýslu- og fjármálasviði.