Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið bætist í hóp áhugasamra um aðstöðu á Sementsreit
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraness, undirrituðu þann 9. júlí s.l. viljayfirlýsingu um að stuðla að því að hluti starfsstöðva stofnana ráðuneytisins verði við Mánabraut 20 á Akranesi, á svokölluðum Sementsreit.
Akraneskaupstaður áformar að byggja ráðhús sveitarfélagsins við Mánabraut 20 og mögulega aðstöðu fyrir fleiri stofnanir sveitarfélagsins. Fyrr í vikunni undirrituðu Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, ásamt Haraldi Benediktssyni, bæjarstjóra, viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Mánabraut 20 fyrir starfsemi sveitarfélagsins ásamt leiguhúsnæði fyrir stofnanir ríkisins á Akranesi og aðstöðu fyrir nýja heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi.
Nú bætist Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið í hópinn og vill skoða aðkomu að uppbyggingu á öflugum og eftirsóknarverðum vinnustað fyrir stofnanir ráðuneytisins á Akranesi þar sem Deiglan, hugmyndafræði deilihagkerfis sem Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir hefur verið að þróa, verður í hávegum höfð. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samvinnu við m.a. fyrrgreind ráðuneyti og Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir og að undirbúningur hefjist í haust.
“Nýlega samþykkt lög um sameiningar stofnana sem heyra undir ráðuneyti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, eru okkur hvatning til að fylgja eftir vegferð hans og stjórnvalda að skapa eftirsóknarverðar aðstæður fyrir starfsfólk stofnana hins opinbera að eiga möguleika á starfsstöð nálægt heimili sínu. Á Akranesi er fjöldi fólks starfsfólk stofnana sem m.a. heyra undir umhverfisráðuneytið og með því að staðfesta vilja okkar til samstarfs erum við að skapa þá festu og að þau störf geti verið hér áfram en ekki síður að enn fleiri eigi möguleika á að hafa starfsaðstöðu sína á Akranesi.
Okkur á Akranesi skiptir máli að geta boðið góðan búsetukost og tækifæri fyrir fólk að vinna að mikilvægum störfum í sinni heimabyggð. Ég vil meina að þetta sé ekki umræðan um staðsetningu stofnana, heldur miklu frekar geta boðið þau gæði sem felast í búsetu á Akranesi og að fólk hafi tækifæri til að starfa hér. Nú er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja undirbúning og efla þannig gamla miðbæjarhlutann okkar. Við fögnum þessum áfanga sérstaklega því eins og ráðherra sagði við undirritun þá vildi hann sýna Akurnesingum fullan stuðning í að efla atvinnu og mannlíf á Akranesi – það skiptir okkur verulegu máli.” segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi.