Umhverfisviðurkenningar Akraneskaupstaðar árið 2020
Föstudaginn 30. október síðastliðinn voru afhentar umhverfisviðurkenningar Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020. Í ljósi covid var athöfnin með öðru sniði en venjulega. Skipulags- og umhverfisráð fór og afhenti viðurkenningar fyrir utan heimili fólksins og ráðið fylgdi í hvívetna sóttvarnarfyrirmælum. Ragnar B. Sæmundsson bæjarfulltrúi og formaður stýrði dagskrá, ásamt ráðsmönnunum Guðríði Sigurjónsdóttur og Ólafi Adolfssyni. Viðurkenningarnar voru vandaður skjöldur, innrammað skjal og gjafabréf hjá Jóni Guðmundssyni garðyrkjumanni.
Samfélagsverðlaun
Bræðurnir Sigurður Arnar Sigurðsson og Ásgeir Guðmundur Sigurðsson hlutu umhverfisviðurkenningu Akraneskaupstaðar í flokknum Samfélagsverðlaun fyrir hreinsun umhverfis í almenningsrými bæjarins og endurvinnslu um langt árabil.
Einbýlishúsalóð
Hjónin María og Jón fengu viðurkenningu fyrir einbýlishúsalóð sína við Vesturgötu140, en lóðin fékk fjölda tilnefninga. Í einni þeirra segir m.a. „mikil natni hefur verið lögð við smáatriði og fjölmargar tegundir blóma og annars gróðurs er þarna að finna. Fallegur garðskáli, brýr, skreytingar og fjölbreytt flóra sem eigendur hafa komið sér upp smátt og smátt undanfarin ár. Falin perla á Skaganum.“
Hvatningarverðlaun
Íbúar fjölbýlishússins að Skagabraut 5 hafa undanfarið unnið að miklum endurbótum á þessu þriggja hæða steinhúsi frá 1949. Hvatningar viðurkenning til eigenda er veitt fyrir vel heppnaðar umbætur á virðulegu húsi sem er áberandi í götumynd í miðkjarna bæjarins.
Tré ársins
Gamalt, stórt og fallegt gullregn við íbúðarhús að Bjarkargrund 37 var tré ársins 2020. Tréð sem var gróðursett snemma á níunda áratugnum er með öflugan stofn og setur svip á aðkomu og götumynd. Tréð myndar umgjörð um inngang hússins og gerir framhlið þess einstaklega aðlaðandi. Tréð er formfallegt og blómstraði stórkostlega í sumar.
Falleg aðkoma
Heiðarbraut 51 í eigu hjónanna Marta Sigurðardóttir og Tómas Sigurðsson fékk viðurkenningu fyrir einstaklega fallega aðkomu sem býður fólk velkomið að húsi í rótgrónu hverfi. Gróðri er vel við haldið og afar fjölbreyttar tegundir í lit og formi.
Dómnefndina skipuðu þau Helena Guttormsdóttir lektor LbhÍ, Sindri Birgisson umhverfisstjóri og Ása Katrín Bjarnadóttir Bs. í landslagsarkitektúr LbhÍ. Nefndin fór í vettvangsferðir í júlí og tók út tilnefningar. Þau unnu m.a. með fagurfræði, fjölbreytileika og samtal við almenningsrými. Markmiðið var að vekja í víðum skilningi athygli á atriðum sem skipta uppbyggingu og framtíð bæjarins máli.
Akraneskaupstaður sendir öllum innilegar hamingjuóskir með viðurkenninguna.