Úthlutun úr Þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs
Á fundi skóla- og frístundaráðs 2. febrúar 2016 var í annað sinn úthlutað styrkjum úr Þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs Akraneskaupstaðar. Þrjár umsóknir bárust um styrk og staðfesti skóla- og frístundaráð tillögu úthlutunarnefndar um að þróunarverkefnin „Að fanga fjölbreytileikann. Handbók um verkfæri Byrjendalæsis, Orðs af orði og Gagnvirks lestrar” og ,,Innleiðing á samvinnulíkani fyrir margbreytilega hópa” hljóti styrk að þessu sinni. Í úthlutunarnefnd eru Sigríður Indriðadóttir formaður skóla-og frístundaráðs, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Gunnar Gíslason ráðgjafi.
Rökstuðningur úthlutunarnefndar er eftirfarandi:
Að fanga fjölbreytileikann. Handbók um verkfæri Byrjendalæsis, Orðs af orði og Gagnvirks lestrar. Ábyrgðarmenn umsóknar: Ásta Egilsdóttir kennari Grundaskóla og Guðrún Guðbjarnadóttir kennari Brekkubæjarskóla. Umsögn úthlutunarnefndar: Verkefnið tengist beint þjóðarátaki í læsi sem Akraneskaupstaður er aðili að. Þetta er samvinnuverkefni beggja grunnskólanna og styður við bæði skóla- og lestrarstefnu Akraneskaupstaðar og eflir skólasamfélag á Akranesi í heild sinni. Ábyrgðarmenn verkefnisins, Ásta og Guðrún, hafa unnið vel saman og faglega að innleiðingu og þróun byrjendalæsis í báðum skólum og aukið samvinnu skólanna með jákvæðum árangri. Umsóknin er fagleg og vel rökstudd. Verkefnið hljóti styrk að upphæð kr. 2.000.000.-
Innleiðing á samvinnulíkani fyrir margbreytilega hópa (Þorpið). Ábyrgðamaður umsóknar: Ruth Jörgensdóttir Rauterberg deildarstjóri dagstarfs í Þorpinu. Umsögn úthlutunarnefndar: Verkefnið er áhugavert frumkvöðlaverkefni sem hefur hlotið viðurkenningu fyrir nýsköpun og þróun í æskulýðsstarfi. Ábyrgðamaður umsóknar, Ruth, hefur þróað samvinnulíkan fyrir margbreytilega hópa barna og unglinga til að skapa umhverfi sem einkennist af virðingu fyrir margbreytileika, félagslega viðurkenningu, þátttöku allra og samvinnu. Þróunarverkefnið felst í innleiðingu hluta þess líkans í starfi með börnum og ungmennum í Þorpinu. Umsóknin er fagleg og vel rökstudd. Verkefnið hljóti styrk að upphæð kr. 1.500.000.-
Tilgangur með Þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs Akraneskaupstaðar er að styðja við þróunar- og nýsköpunarstarf á sviði skóla- og frístunda á vegum Akraneskaupstaðar með það að markmiði að starfsemin verði í sífelldri þróun í takt við breytingar í umhverfi og samfélagi. Markmiðið er að verkefnin styðji við og stuðli að fagmennsku starfsfólks, auknum gæðum í skóla- og frístundastarfi, umbótum og nýbreytni.