Bilanaleit í veitukerfi á Akranesi
Veitur fengu ábendingu frá fasteignaeiganda í bænum um að möguleiki væri á að rakaskemmdir í húsnæði viðkomandi mætti rekja til bilunar í veitukerfinu á Akranesi. Undanfarna daga hafa Veitur í samvinnu við Akraneskaupstað og fasteignaeigandann, grafið nokkrar holur í bæjarlandi Akraness til að leita að mögulegri bilun. Enn hefur ekkert fundist sem gefur til kynna að bilun sé í veitukerfi Veitna í bænum. Haldið verður áfram að skoða mögulegar skýringar á þeirri ábendingu sem fram kom.
Veitur taka allar slíkar ábendingar alvarlega og bregðast við með því að senda sérfræðinga í lekaleit á staðinn. Veitur leggja mikla áherslu á góða nýtingu á auðlindum og fylgjast því grannt með aldri og ástandi lagna í þeim tilgangi að tryggja afhendingu á rafmagni, heitu og köldu vatni ásamt fráveitu.
Samkvæmt tilkynningu frá Veitum