Viðhorfskönnun: Íbúasamráð um hugmyndir að uppbyggingu á Langasandssvæðinu
Akraneskaupstaður mun í ársbyrjun 2021 efna til hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðis á Akranesi í samstarfi við FÍLA, félag íslenskra landslagsarkitekta. Markmiðið með samkeppninni er að fá hugmyndir um framtíðarskipulag svæðisins í heild sem tengir m.a. strandsvæði, skólasvæði, framtíðar uppbyggingarreit og hafnarsvæðið. Þetta er stórt verkefni um dýrmætt svæði og því mikilvægt að kalla eftir skoðunum flestra. „Við viljum hefja þessa vegferð og skapa svæði sem mótast af vellíðan og heilsu fyrir alla notendur og skiptir okkur máli að fá íbúana með í lið en þetta svæði er okkar svæði“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.
Í ljósi heimsfaraldurs er ekki hægt að vera með hefðbundna íbúafundi og hefur þess í stað verið útbúin rafræn viðhorfskönnun um þarfir, upplifun og framtíðarsýn íbúa um svæðið. Fá hér íbúar tækifæri að láta sínar skoðanir, þarfir og áherslur í ljós. Munu niðurstöður könnunarinnar vera fylgigagn við auglýsingu um samkeppnina. Könnunin samanstendur af sextíu spurningum sem flestar eru krossaspurningar og tekur um 15-30 mínútur að svara. Þátttakendur hafa kost á að komast í pott sem dregið verður úr um og fá einhverjir heppnir gjöf að launum. ALLIR ungir sem aldnir eru hvattir til að taka þátt. Könnunin verður opin út janúarmánuð.
Kynningarmyndband um fyrirhugaða samkeppni