Viðurkenningar og verðlaun fyrir góðan árangur í stærðfræðikeppni
Um helgina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræðikeppni á unglingastigi grunnskóla á Vesturlandi. Það er Fjölbrautarskóli Vesturlands á Akranesi sem staðið hefur fyrir þessari keppni og var þetta í sautjánda sinn sem skólinn heldur hana. Keppnin fór fram þann 13. mars sl. og var nemendum í 8.-10. bekk í grunnskólum á Vesturlandi boðið að leysa stærðfræðiþrautir.
Nemendur úr grunnskólum Akraneskaupstaðar hrepptu 1. sætið í öllum flokkum, úr Brekkubæjarskóla þau Halla Margrét Jónsdóttir fyrir 10. bekk og Arnar Reyr Kristinsson fyrir 8. bekk og úr Grundaskóla Bjartur Finnbogason fyrir 9. bekk. Þeim tíu efstu úr hverjum árgangi var boðið að koma og taka við viðurkenningarskjölum. Auk viðurkenningarskjala fengu þrír efstu úr hverjum árgangi peningaverðlaun, 20.000 krónur fyrir fyrsta sæti, 15.000 fyrir annað sæti og 10.000 fyrir þriðja sæti.
Keppnisgögn voru að þessu sinni búin til í Borgarholtsskóla og notuð við þrjá skóla. Hinir tveir voru Borgarholtsskóli og Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Þátttakendur voru samtals 101 en mun fleiri eða 159 höfðu skráð sig í keppnina en óveður hamlaði þátttöku þeirra. Þátttakendur komu úr Auðarskóla, Brekkubæjarskóla, Grundaskóla, Grunnskólanum í Borgarnesi, Grunnskóla Borgarfjarðar Kleppjárnsreykjum, Heiðarskóla og Klébergsskóla. Það voru fyrirtækin Norðurál og Málning hf. sem styrktu keppnina í ár.
Akraneskaupstaður sendir vinningshöfum hamingjuóskir.
Nánari upplýsingar um viðurkenningarnar má finna hér á heimasíðu FVA.
Jafnframt má sjá myndir teknar við afhendingu hér.