Fara í efni  

Viljayfirlýsing undirrituð um samstarf í atvinnumálum fólks með skerta starfsgetu

Fyrr í dag undirrituðu Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness, Guðrún Sigríður Gísladóttir frá Vinnumálastofnun Vesturlands, Inga Dóra Halldórsdóttir frá Starfsendurhæfingu Vesturlands, Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir frá Símenntunarmiðstöð Vesturlands og Þórður Már Gylfason frá Sansa veitingar ehf. viljayfirlýsingu þess efnis að kanna leiðir til samstarfs í atvinnumálum fólks með skerta starfsgetu á Akranesi.  Viðstödd athöfnin voru Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra, bæjarfulltrúar og embættismenn Akraneskaupstaðar. 

Með viljayfirlýsingunni á að kanna hvort grundvöllur er til að fara í sameiginlegt þróunarverkefni með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

  • Að fjölga atvinnutækifærum á vinnumarkaði fyrir fólk með skerta starfsgetu á Akranesi þannig að hæfileikar einstaklinga nýtist.
  • Að viðurkenna rétt fólks með skerta starfsgetu, til jafns við aðra, til vinnu með því að stuðla að atvinnutækifærum í vinnuumhverfi sem er án aðgreiningar.
  • Að efla, vilja og styrkja þátttöku fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði og stuðla að fjölgun starfa með þjálfun, hvatningu og stuðningi í starfi.

Þórður Már Gylfason eigandi Sansa veitingar ehf. hefur haldið þessari hugmynd á lofti í dágóðan tíma. Hann trúir því að fólk með skerta starfsgetu geti gert svo miklu meira en þau fá tækifæri til í dag og vill að sitt fyrirtæki verði skipað mannauði þar sem margbreytileiki ríkir í starfsmannahópnum og virðing sé borin fyrir fjölbreytileika fólks. Fyrirtækið hyggst opna nýjan veitingastað á Akranesi undir formerkjunum Sansa streetfood og vilja þau með þessu verkefni ráða til sín fólk með skerta starfsgetu til starf í allt að sex stöðugildi, þar af þrjú stöðugildi fyrir fatlaða einstaklinga. „Akranes er framsækið sveitarfélag sem vill vera leiðandi og öðrum sveitarfélögum til fyrirmyndar. Með verkefni eins og Þórður kemur með til okkar, erum við að gera eitthvað nýtt og stórkostlegt fyrir einstaklinga sem hafa oft átt erfitt með að fá starf við sitt hæfi“. Segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.

Á næstu misserum munum samstarfsaðilar undirbúa þróunarverkefnið frekar og stefnt er að því að verkefnið fari í gang haustið 2019. Viljayfirlýsingin er aðgengileg hér.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00