Fara í efni  

Bæjarstjórn

1333. fundur 11. maí 2021 kl. 17:00 - 20:20 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
  • Valgarður L. Jónsson forseti bæjarstjórnar
  • Elsa Lára Arnardóttir 2. varaforseti
  • Sandra Margrét Sigurjónsdóttir aðalmaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Einar Brandsson 1. varaforseti
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Bára Daðadóttir aðalmaður
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti bíður fundarmenn velkomna til fundar.

1.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2020 - A hluti

2103297

Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2020 - A hluti
1.1 Aðalsjóður
1.2 Eignasjóður
1.3 Byggðasafnið í Görðum
1.4 Fasteignafélag Akraneskaupstaðar slf.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti ársreikninga A- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2020 á fundi sínum þann 27. apríl 2021 og vísaði til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Forseti leggur fram tillögu um að ræða dagskrárliði nr. 1 til og með nr. 3 saman undir dagskrárlið nr. 1 og að gerð verði grein fyrir umræðunni þar þó hvert og eitt mál verði eðli máls samkvæmt afgreitt sérstaklega.

Tillagan samþykkt 9:0

Rekstrarniðurstaða A-hluta, fyrir óreglulega liði, er jákvæð um 25,0 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 184,7 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða A-hluta með óreglulegum liðum er jákvæð um 179,5 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 40,3 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur:
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:
Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er 1.652 en nam 1.718 m.kr árið 2019.
Skuldaviðmið er 24% en var 23% árið 2019.
EBITDA framlegð er 0,25% en var 8,38% árið 2019.
Veltufé frá rekstri er 11,35% en var 16,84% árið 2019.
Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 84% en var 89% árið 2019.
Eiginfjárhlutfall er 59% en var 57% árið 2019.
Veltufjárhlutfall er 1,92 en var 2,33 árið 2019.

Til máls tóku:
ELA, ÓA, EBr, SMS, ELA, KHS, VLJ, RBS, EBr, BD, ÓA og RÓ sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna ársreiknings Akraneskaupstaðar 2020:

Ánægjulegt er að Akraneskaupstaður skilar á rekstrarárinu 2020 um 133 m.kr. afgangi á samstæðu reikningi bæjarins en það er áhyggjuefni að jákvæð rekstrarniðurstaða er tilkomin vegna fjármagnsliða og einskiptis tekna sem ekki er hægt að reiða sig á til framtíðar.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa varað við þeirri þróun í rekstri Akraneskaupstaðar á undanförnum árum að útgjöld vaxa hraðar en tekjur. Í aðdraganda fjárhagsáætlunar 2021 lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í bæjarstjórn um að farið yrði í viðamikla úttekt á rekstri og stjórnsýslu Akraneskaupstaðar.Því miður er úttektin enn á byrjunarreit heilum fimm mánuðum síðar og mjög brýnt að hraða verkefninu svo upplýsingarnar nýtist við gerð fjárhagsáætlana til næstu ára.

Áhyggjur Sjálfstæðisflokksins snúa m.a. að eftirtöldum staðreyndum sem sýnilegar eru í ársreikningi Akraneskaupstaðar 2019 og enn skýrari fyrir árið 2020.

Gjöld hækka langt umfram tekjur og nú er svo komið að sveitarfélagið er ekki sjálfbært í rekstri. Laun og launatengd gjöld hækka um 500 m.kr. milli ára sem á að hluta til skýringar í hækkunum kjarasamninga sem og fjölgun starfa. Þessi útgjaldaliður er nú orðin um 73% af tekjum bæjarsjóðs og hefur aldrei verið hærri. Þá er mikilvægt að draga fram að frá árinu 2017 hafa launagjöld án lífeyrisskuldbindinga hjá Aðalsjóði vaxið um 34% og annar rekstrarkostnaður um 39% á meðan íbúum hefur fjölgað um 6% og tekjur hafa vaxið um 16%. Hér hefur því skapast mikið ójafnvægi í rekstrinum.

Vöxtur tekna undanfarin ár er ekki í takt við útgjöld og því ljóst að áskoranir kaupstaðarins eru miklar nema það takist að stækka tekjustofna sveitarfélagsins með fjölgun íbúa og nýrra atvinnutækifæra. Að öðrum kosti er fyrirsjáanlegur niðurskurður á þjónustu eða skipulagsbreytingar sem lækka kostnað sveitarfélagsins svo tryggja megi rekstrargrundvöllinn.

Útgjöld vegna málaflokks fatlaðs fólks fara umtalsvert fram úr áætlun ársins 2020. Akraneskaupstaður hefur haldið bókhald um útgjöld og tekjur vegna málaflokksins frá yfirfærslu frá ríkinu árið 2011 og er uppsafnað rekstrartap um 600 m.kr. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru uggandi yfir stöðu málaflokksins í heild en þessi hallarekstur eykur á fyrirsjáanlegan rekstrarvanda sveitarfélagsins.

Áhyggjuefni er að Hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfði sé rekið með tapi þrátt fyrir að bagga lífeyrisskuldbindinga hafi verið létt af starfseminni. Ljóst er að fjárveitingar ríkisins duga ekki til að standa undir lögbundinni starfsemi hjúkrunarheimila og engar vísbendingar eru um að breyting verði þar á. Nú er svo komið að sveitarfélög á Íslandi treysta sér ekki til að sinna rekstri hjúkrunarheimila og mörg hver hafa skilað hjúkrunarheimilum í rekstri til ríkisins. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka því þann vilja sinn að lokið verði við athugun á framtíðar rekstarformi Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Höfða á kjörtímabilinu.

Á tímum heimsfaraldurs eru áskoranir í rekstri sveitarfélaga miklar og hefur Akraneskaupstaður lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að snúa vörn í sókn. Áhrif Covid-19 á bæjarsjóð eru minni en hjá sveitarfélögum sem hafa þurft að horfa upp á mikið atvinnuleysi með tilsvarandi tekjumissi. Útgjaldaaukning Akraneskaupstaðar vegna Covid-19 kom til vegna ákvarðanna bæjarstjórnar að bæta í viðhaldsliði og mæta bæjarbúum og fyrirtækjum í gjaldinnheimtu. Allt ákvarðanir sem bæjarstjórn stóð einhuga að. Það er og verður ávallt hlutverk bæjarfulltrúa á Akranesi að verja rekstur og þjónustu Akraneskaupstaðar við íbúa og tryggja að Akraneskaupstaður geti sinnt þeim mikilvægu verkefnum, uppbyggingu og þjónustu sem honum ber til framtíðar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur G. Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:

ELA sem leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra vegna ársreiknings Akraneskaupstaðar 2020:

Á rekstrarárinu 2020 skilar Akraneskaupstaður rúmlega 133 milljón króna rekstrarafgangi sem er um 177 milljón króna lakari niðurstaða en upphafleg fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir en 105 milljónum betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlun með viðaukum.

Árið 2020 var afar óvenjulegt ár vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar og neikvæð fjárhagsleg áhrif heimsfaraldursins á rekstur Akraneskaupstaðar eru metin á 275 milljónir króna. Þessi áhrif felast m.a. í endurgreiðslu á þjónustugjöldum vegna skerðingar á þjónustu, lækkun útsvarstekna, frestun á innheimtu fasteignagjalda og annarra tekna auk þess sem aukning varð á útgjöldum á ýmsum sviðum, eins og í útgreiðslu húsnæðisbóta og í öðrum félagslegum stuðningi.

Þegar litið er til þessara staðreynda þá er sá ársreikningur sem hér er lagður fram mikill varnarsigur fyrir okkur sem erum í bæjarstjórn. Sérstaklega vegna þess að við vorum sammála um að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir í upphafi heimsfaraldursins með það að markmiði að vernda og verja þau fyrirtæki, heimili og félagasamtök í samfélaginu okkar sem urðu fyrir hvað mestum skakkaföllum, þó það myndi þýða lakari rekstrarafkomu um tíma.

Laun og launatengd gjöld hafa hækkað um 500 milljónir milli ára, sem er um 10% hækkun, en hins vegar kemur fram í skýringum í ársreikningi að ef litið er til sömu hækkunar reiknaðrar í krónum pr. íbúa, þá hækkar þessi liður um 8%. Þetta er mikilvægt að rýna vel og verður skoðað í þeirri fjármálagreiningu sem KPMG mun vinna að fyrir kaupstaðinn á næstu vikum.

Skatttekjur í krónum pr. íbúa lækka á milli ára, en við höfum átt því að venjast síðustu árin að þessi stærð hækki um 3-8% frá ári til árs.

Skuldir Akraneskaupstaðar lækka og einnig lífeyrisskuldbinding. Í fyrsta sinn í allmörg ár fara afborganir af lífeyrisskuldbindingum lækkandi. Þessi sterka staða er okkur afskaplega mikilvæg til að halda áfram þeirri stórfelldu uppbyggingu innviða sem er nú þegar í gangi hér á Akranesi.

Áhyggjuefni er að Höfði, hjúkrunar- og dvalarheimili er rekið með tapi á árinu 2020. Samkvæmt greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila í landinu þá var rekstrartap hjúkrunarheimila sem rekin eru á daggjöldum 3,5 milljarðar á árunum 2017 ? 2019 og á árinu 2019 voru 87% heimilanna rekin með tapi. Samkvæmt greiningunni nær þessi erfiða staða bæði til heimila sem rekin eru af sveitarfélögum og einnig til heimila sem rekin eru sem sjálfseignastofnanir. Það er því ljóst að öll hjúkrunarheimili sem fá daggjaldagreiðslur frá ríkinu eiga við rekstrarvanda að stríða, hvert sem rekstarform hjúkrunarheimilanna sjálfra er. Vandinn liggur í því að daggjöldin sem ríkið skammtar í reksturinn eru ekki í tengslum við raunveruleikann.

Ánægjuefni er þó að á dögunum kom til leiðrétting á daggjöldum til Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis sem fól í sér auknar tekjur upp á 28 milljónir króna á árinu 2021. En betur má ef duga skal. Ríkið þarf að koma enn betur að og leiðrétta hlut hjúkrunarheimila og það er með engu móti ásættanlegt að bíða með þá leiðréttingu fram á næsta ár.

Full ástæða er einnig til að líta sérstaklega til rekstrarafkomu ársins hvað varðar málefni fatlaðra. Á árinu 2020 er rekstrarniðurstaða málaflokksins neikvæð sem nemur 228 m.kr, sem er 97 m.kr. meira tap en á árinu 2019. Þessi mikla niðursveifla helgast af því að á milli áranna 2019 og 2020 aukast útgjöld í þessum málaflokki um 45 m.kr. en á sama tíma minnka tekjur í málaflokknum um 52 m.kr., fyrst og fremst vegna niðurskurðar á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að beita niðurskurði á Jöfnunarsjóði sem einni af aðferðunum til að rétta af ríkisreksturinn hefur þannig haft bein áhrif til útgjaldaaukningar í rekstri Akraneskaupstaðar á þjónustu við fatlað fólk.

Þetta er áframhald af þeirri þróun sem verið hefur á rekstri málefna fatlaðra hjá Akraneskaupstað, en allt frá árinu 2013 hefur rekstrarhalli málaflokksins aukist ár frá ári, með örfáum undantekningum. Uppsafnað rekstrartap Akraneskaupstaðar af málefnum fatlaðra, frá tilfærslu frá ríkinu til sveitarfélaga árið 2011, er 609 milljónir króna. Þeirri upphæð hefur Akraneskaupstaður varið á þessu tímabili, til rekstrar á málaflokki sem samkvæmt öllu ætti að vera að fullu fjármagnaður af ríkissjóði. Í ljósi þessa teljum við bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra fulla ástæðu til þess að gerð verði allsherjar úttekt á rekstri málefna fatlaðra hjá sveitarfélögum, á svipaðan hátt og gert var varðandi rekstrarkostnað hjúkrunarheimila og birtist í skýrslu sem kom út í síðustu viku.

Þegar á heildina er litið, og þrátt fyrir erfiðleika í rekstri þeirra málaflokka sem hér hafa sérstaklega verið nefndir, þá er fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar sterk. Vegna styrkrar fjármálastjórnar höfum við komist styrkum fótum í gegnum óvenjulega tíma á meðan heimsfaraldur kórónaveiru hefur gengið yfir. Við sjáum nú vonandi fram á hefðbundnara árferði með hækkandi sól, þó við þurfum að vera viðbúin því að áhrifa faraldursins, beinna og óbeinna, haldi áfram að gæta fram eftir þessu ári.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)

Framhald umræðu:

KHS.

Forseti leggur fram tillögu um að bæjarstjórn Akraness feli bæjarráði að óska eftir fundi með félags- og barnamálaráðherra og síðar heilbrigðisráðherra til að ræða kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, m.a. hvað varðar þjónustu við fatlaða.

Samþykkt 9:0

Framhald umræðu:

Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu um afgreiðslu ársreiknings A-hluta Akraneskaupstaðar:
Bæjarstjórn Akranesss samþykkir ársreikninga A- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2020 og staðfestir hann með áritun sinni.

Samþykkt 9:0

2.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2020 - B-hluti

2103296

Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2020 - B hluti
2.1. Fasteignafélag Akraneskaupstaðar ehf.
2.2. Gáma
2.3. Háhiti ehf.
2.4. Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili

Bæjarstjórn Akraness samþykkti ársreikninga B- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2020 á fundi sínum þann 27. apríl 2021 og vísaði til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Rekstrarniðurstaða B-hluta var neikvæð um 46,3 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 12,3 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Bæjarstjórn samþykkir ársreikninga B- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2020 og staðfesta með áritun sinni.

Samþykkt 9:0

3.Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2020 - samstæða

2103295

Samstæðureikningur Akraneskaupstaðar 2020.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti ábyrgðar og skuldbindingayfirlit og samstæðurreikning A- og B- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2020 á fundi sínum þann 27. apríl 2021 og vísaði til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Rekstrarniðurstaða Akraneskaupstaðar, fyrir óreglulega liði, var neikvæð um 21,3 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 197,0 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða Akraneskaupstaðar með óreglulegum liðum var jákvæð um 133,1 m.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 28,0 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Lykiltölur:
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga:
Rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára í m.kr. er 1.615 en nam 1.721 m.kr. árið 2019.
Skuldaviðmið er 24% en var 23% árið 2019.
EBITDA framlegð er 0,17% en var 7,83% árið 2019.
Veltufé frá rekstri er 9,79% en var 15,27% árið 2019.
Skuldahlutfall (skuldir/rekstrartekjum) er 79% en var 84% árið 2019.
Eiginfjárhlutfall er 57% en var 55% árið 2019.
Veltufjárhlutfall er 1,82 en var 2,19 árið 2019.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir ábyrgðar og skuldbindingayfirlit og samstæðurreikning A- og B- hluta Akraneskaupstaðar vegna ársins 2020 staðfestir hann með undirritun sinni.

Samþykkt 9:0

4.Mastur vegna fjarskiptaþjónustu

2009166

Skipulags- og umhverfisráð samþykki á fundi sínum þann 3. maí síðastliðinn að leggja til við bæjarstjórn að skipulagsbreytingin verði samþykkt, send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýsti í B-deild Stjórnartíðinda í framhaldinu.
Til máls tók: RBS.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir deiliskipuskipulagsbreytingu á skipulagi Garðalundar og Lækjarbotna, sem felst í að heimilt verði að reisa 18 metra hátt fjarskiptamastur ásamt 2,1 metra háum tækjaskáp, í um 200 metra fjarlægð frá byggð við Bogalund, um 250 metra frá næstu húsum í Jörundarholti og um 170 metra frá fyrirhugaðri byggð við Skógarlund, að breytingin verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt 9:0

5.Smiðjuvellir 14 - sala

2104233

Sala á Smiðjuvöllum 14.
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 29. apríl síðastliðinn sölu á Smiðjuvöllum 14 og kvöð um að húsið og mannvirki á lóðinni skuli fjarlægt, með flutningi eða niðurrifi, eigi síðar en 31. desember 2021. Bæjarráð vísaði málinu til bæjarstjórnar Akraness til endanlegrar afgreiðslu.
Bæjarstjórn samþykkir sölu á Smiðjuvöllum 14 og kvöð um að húsið og mannvirki á lóðinni skuli fjarlægt, með flutningi eða niðurrifi, eigi síðar en 31. desember 2021, sbr. meðfylgjandi gögn.

Samþykkt 9:0

6.Suðurgata 108 - verðmat, framkvæmdir, sala

1904136

Kaupandi óskaði eftir að falla frá samningi um kaup á eigninni.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum að fallið yrði frá kaupsamningi um eignina.
Til máls tóku:
RBS, RÓ sem leggur fram eftirfarandi bóku fulltrúa Sjálfstæðislokksins:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna framkominni tillögu formanns skipulags- og umhverfisráðs, bæjarfulltrúa Ragnars B. Sæmundssonar, um að falla frá söluferli á Suðurgötu 108 og rífa húsið þess í stað.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:

BD og KHS.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir ósk kaupanda um að fallið verði frá kaupsamningi um eignina Suðurgata 108.

Samþykkt 9:0

7.Fundargerðir 2021 - Bæjarráð

2101002

3457. fundargerð bæjarráðs frá 29. apríl 2021.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

8.Fundargerðir 2021 - Skipulags- og umhverfisráð

2101005

194. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 26. apríl 2021.

195. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 3. maí 2021.
Til máls tóku:
RBS um fundargerð nr. 194, fundarliði nr. 1, nr. 2, nr. 3, nr. 6, nr. 7. og nr. 11.
RBS um fundargerð nr. 195, fundarliði nr. 1, nr. 5, nr. 6 og nr. 7.
EBr um fundargerð nr. 194, fundarlið nr. 4.
RBS um fundargerð nr. 194, fundarlið nr. 4.
RÓ um stöðu framvindu loftgæðamáls (framkvæmda) í Grundaskóla.
RBS um stöðu framvindu loftgæðamáls (framkvæmda) í Grundaskóla.
BD um stöðu framvindu loftgæðamáls (framkvæmda) í Grundaskóla.
SFÞ um stöðu framvindu loftgæðamáls (framkvæmda) í Grundaskóla.
RÓ um stöðu framvindu loftgæðamáls (framkvæmda) í Grundaskóla.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

9.Fundargerðir 2021 - Skóla- og frístundaráð

2101004

160. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 4. maí 2021.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

10.Fundargerðir 2021 - Velferðar- og mannréttindaráð

2101003

153. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 5. maí 2021.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerðir 2021 og tilkynningar - Samband íslenskra sveitarfélaga

2101117

897. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. apríl 2021.
Til máls tóku:

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.OR - aðalfundur 2021

2104117

Fundargerð aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur 14. apríl 2021.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Næsti fundur bæjarstjórnar verður þriðjudaginn 25. maí næstkomandi.

Fundi slitið - kl. 20:20.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00