Fara í efni  

Bæjarráð

3571. fundur 12. september 2024 kl. 08:15 - 14:55 í Lindinni Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Einar Brandsson formaður bæjarráðs
  • Valgarður L. Jónsson varaformaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Haraldur Benediktsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá

1.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2025-2034

2409132

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2025 (2026 - 2034).
Lagt fram.

Bæjarráð vísar áætluninni til skipulags- og umhverfisráðs og óskar þess að ráðið setji fram sína forgangsröðun m.a. miðað við framgang verkefna á árinu 2024. Jafnframt meti skipulags- og umhverfisráð þörfina fyrir viðauka og setji þá fram formlegt erindi þar að lútandi.

Fyrirhugaður er vinnufundur bæjarstjórnar miðvikudaginn 18. september nk. sem helgaður er fjárfestinga- og framkvæmdaáætluninni en áætlunin er einn veigamesti þátturinn í fjárhagsáætlunargerðinni.

Samþykkt 3:0

2.Fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2026-2028

2406142

Málið er til áframhaldandi vinnu hjá bæjarráði.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi grunnforsendur vegna fjárhagsáætlunargerðarinnar vegna ársins 2025 og vegna tímabilsins 2026 til og með 2028.

Samþykkt 3:0

Í framhaldinu verða vinnubækur einstaka stofnana og deilda útbúnar og sendar til forstöðumanna og sviðsstjóra til úrvinnslu. Bæjarráð óskar sem fyrr góðs samstarfs við stjórnendur stofnana í verkefninu en ljóst er að efnahagsaðstæður eru mjög krefjandi sem stendur.

Samþykkt 3:0

3.Launaviðaukar - fjárhagsáætlun 2024

2408042

Launaauki við fjárhagsáætlun ársins 2024 vegna kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga við stéttarfélögin Sameyki og Verkalýðsfélags Akraness sem samþykktir voru sumarið 2024.
Bæjarráð samþykkir viðauka nr. 20 við fjárhagsáætlun ársins 2024. Viðaukinn felur í sér ráðstöfun að fjárhæð kr. 180.068.309 sem skiptist á viðeigandi málaflokka og deildir skv. meðfylgjandi sundurliðun. Útgjöldunum er mætt innan gildandi fjárhagsáætlunar með tilfærslu af deild 20830-1697 en tekið var til hliðar fjármagn að fjárhæð 200 m.kr. og því ljóst að það dugar engan veginn til mæta þeim viðbótarútgjöldum sem vænta má síðar á árinu vegna þeirra kjarasamninga sem enn er ósamið um (kennarasambandið, Bandalag háskólamanna o.fl.).

Samþykkt 3:0

Bæjarráð vísar ákvörðuninni til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.

Samþykkt 3:0

4.Transition Labs ehf. - Kynning fyrir bæjarráð á starfsemi

2406068

Félagið kynnti hluta starfseminnar á bæjarráðsfundi 27. júní sl og þá ákveðið að fulltrúar fyrirækisins kæmu fljótlega aftur á fund bæjarráðs til að klára yfirferðina.

Kjartan Örn Ólafsson framkvæmdarstjóri, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir rekstrarstjóri og Karen Björk Eyþórsdóttir verkefnastjóri frá Transisition Labs ehf. sitja fundinn undir þessum dagskrárlið sem og bæjarfulltrúarnir Liv Aase Skarstad og Kristinn Hallur Sveinsson. Einnig sitja Valdís Eyjólfsdóttir verkefnastjóri og Halla Marta Árnadóttir skipulagsfulltrúi fundinn.
Bæjarráð þakkar fulltrúum Transition Labs fyrir komu þeirra á fundinn og kynninguna.

Gestir víkja af fundi.

5.Kostnaðarhlutdeild fatlaðra vegna aksturs utan skipulags þjónustutíma

2408114

Kostnaðarhlutdeild fatlaðs fólks í akstursþjónustu á vegum búsetuþjónustunnar, utan skipulagðs þjónustutíma, hefur verið óbreytt frá árinu 2017, eða kr. 58 á hvern ekinn kílómeter. Gerðir hafa verið samningar við íbúa um þjónustuna þar sem tiltekið er að akstursgjaldið sæti árlegri endurskoðun, sem ekki hefur gengið eftir. Lagðar eru fram þrjár mismunandi leiðir til að tryggja að kílómetraverðið taki breytingum til samræmis við aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins.

Gjald þetta mun fylgja árlegum ákvörðunum um gjaldskrár bæjarfélagsins.

Bókun velferðar- og mannréttindaráðs 20. ágúst 2024

Velferðar- og mannréttindaráð samþykkir að gjaldið breytist í samræmi við almennar gjaldskrár hjá Akraneskaupstað frá 2017. Gjaldskrárhækkanir frá 2017 hafa verið breytilegar milli ára. Uppreiknað kílómetragjald, kr. 58, verður því kr. 72, frá og með 1. janúar 2025. Vísað til fjárhagsáætlunargerðar vegna ársins 2025.
Lagt fram.
Bæjarráð vísar málinu til fjárhagsáætlunargerðar.

Samþykkt 3:0

6.KFÍA tækifærisleyfi á knattspyrnuleik ÍA og Breiðablik 25. ágúst 2024

2408121

Afgeiðsla bæjarstjóra lögð fram til kynningar.
Bæjarráð samþykkir afgreiðslu bæjarstjóra með vísan til 75. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar.

Samþykkt 3:0

7.KFÍA tækifærisleyfi á knattspyrnuleik ÍA og KA 15. september 2024

2408275

Umsagnabeiðni frá sýslumanninum á Vesturlandi vegna umsóknar KFÍA um tækiærisleyfi.
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við útgáfu leyfisins til umsækjanda með þeim fyrirvara að jákvæðar umsagnir berist frá slökkviliðsstjóra, Heilbrigðiseftirliti og öðrum viðbragðsaðilum (umsagnaraðilum).

Samþykkt 3:0

8.Skógarlundur 3 - umsókn um byggingarlóð ÚTHLUTAÐ

2304098

Ósk um að skila inn lóðinni Skógarlund 3. búið var að greiða 200.000,- staðfestingargjald og fyrri hluta gatnagerðargjalda 9.101.441,-.

Lóðinni var úthlutað 11. maí 2023.
Bæjarráð samþykkir og heimilar skil lóðarhafa á lóðinni Skógarlundi 3 sem fer þá að nýju á lista yfir lausar lóðir hjá Akraneskaupstað.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð felur sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs frekari úrvinnslu málsins m.t.t til endurgreiðslu til lóðarhafa o.fl.

Samþykkt 3:0

9.Uppbygging á Breið

2406159

Skipan vinnuhóps og o.fl.
Lagt fram.

Bæjarráð felur bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins og að eiga vinnufund með fulltrúum Brims.

Samþykkt 3:0

10.Hausthúsatorg - bensínstöð N1

2112034

Málið er til áframhaldandi vinnu hjá bæjarráði.
Bæjarráð felur bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins og leggur áherslu á að uppbyggingu verði hraðað og verði í takt við áætlanir og án sérstakra fyrirvara.

Samþykkt 3:0

11.Kvennaathvarfið - rekstrarstyrkur fyrir árið 2025

2409039

Kvennaathvarfið - Umsókn um rekstrarstyrk fyrir árið 2025 að fjárhæð kr. 200.000.
Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar vegna ársins 2025.

Samþykkt 3:0

12.HEIMA-SKAGI not af eldra húsnæði til afnota við hátíðina.

2409088

Erindi Ólafs Páls Gunnarssonar um að fá afnot af eldra húsnæði til afnota við hátíðina.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið.

Samþykkt 3:0

13.Samræmd móttaka flóttafólks - framlenging samnings

2408200

Í mars sl. skipaði félags- og vinnumarkaðsráðherra starfshóp um tillögu að nýjum samningi um móttöku flóttafólks líkt og kveðið er á um í 5. mgr. 10. gr. samnings um samræmda móttöku flóttafólks. Frá því í mars hefur hópurinn fundað átta sinnum og farið yfir helstu áskoranir og mögulegar lausnir í þjónustu sveitarfélaganna við flóttafólk. Starfshópurinn, sem skipaður er fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, félags- og vinnumarkaráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og innviðaráðuneytis, átti upphaflega að skila tillögum að nýjum samningi í lok júní 2024. Ljóst er að vinna starfshópsins tefst vegna umfangs verkefnisins og er það samdóma álit allra að samtalið hafi gengið vel og verið uppbyggilegt. Ráðherra hefur því veitt starfshópnum áframhaldandi umboð fram á haustið til að skila tillögum að nýjum samningi.

Í 14. gr. gildandi samnings segir að samningurinn gildi til 30. júní nk. með heimild til framlengingar um sex mánuði til viðbótar, þ.e. til 31. desember 2024, svo framarlega sem starfshópur skv. 5. mgr. 10. gr. samningsins hafi verið starfræktur um endurskoðun samnings um samræmda móttöku flóttafólks.

Í ljósi þess að drög að nýjum samningi liggja ekki fyrir og framangreindur starfshópur er enn að störfum er þess farið á leit við sveitarfélögin að núgildandi samningur verði framlengdur, sbr. 14. gr. samningsins, og gildi þá til 31. desember 2024.

Í bókun bæjarráðs frá 29.02.2024 er gerð athugasemd við að í samningnum sé ekki kveðið á um, með skýrum hætti, hvenær starfshópnum sé gert að skila tillögum. Tók bæjarstjórn undir ábendingar bæjarráðs og alvarleika þess að vanhöld séu á styrkveitingum ráðuneytisins vegna móttökunnar. Voru samningsdrögin samþykkt.



Bókun velferðar- og mannréttindaráðs 3. september 2024:

Velferðar- og mannréttindaráð gerir athugasemd við að ekki liggi fyrir breytingar á fyrirliggjandi samningi um móttöku flóttafólks af hálfu starfshópsins, líkt og fyrri bókun ráðsins kvað á um að væri forsenda framlengingar. Fyrir liggur að styrkir ráðuneytisins vegna móttökunnar mættu ekki kostnaði sveitarfélagsins árið 2023 og árið 2024 hefur enn frekar dregið saman í fjárveitingu ráðuneytisins. Samningur er forsenda styrkveitingar, af hálfu ráðuneytisins, fyrir seinni hluta ársins 2024. Velferðar- og mannréttindaráð sér því engan kost annan en að samþykkja fyrirliggjandi samning, enda stór hópur flóttafólks sem þarfnast þjónustu kaupstaðarins. Ráðið ítrekar mikilvægi þess að starfshópurinn leggi fram samningsdrög sem fyrst svo unnt sé að taka afstöðu til verkefnisins við yfirstandandi fjárhagsáætlunargerð vegna 2025. Málinu vísað til bæjarráðs til endanlegrar afgreiðslu.
Bæjarráð samþykkir framlengingu samnings um samræmda móttöku flóttafólks sem undirritaður var 18. mars 2024 með þeim fyrirvörum að ríkið endurgreiði þann kostnað sem út af mun standa vegna samningsins á árunum 2023 og 2024 (er sem stendur samtals að fjárhæð um 8,6 m.kr., miðað við launakostnað fyrstu 6 mánuði 2024 og endurgreiðslu fjárhagsstuðnings fyrstu þrjá mánuði ársins 2024) og gerð hefur verið grein fyrir í samskiptum fulltrúa Akraneskaupstaðar við ráðuneytið, að tryggt sé að starfshópurinn ljúki störfum nú á haustmánuðum, og að fyrir liggi nýr samningur vegna komandi árs eða ára þar sem skýrt sé að endurgreiðslur ríkisins nemi útlögðum kostnaði sveitarfélagsins vegna þjónustunnar.

Bæjarráð áréttar mikilvægi þess að nýr samningur liggi fyrir tímanlega í haust vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2025 en skýr lagaleg tímamörk liggja fyrir varðandi tímafresti sveitarstjórna til að ljúka þeirri vinnu (1. nóvember nk. vegna fyrri umræðu og 15. desember vegna síðari umræðu og afgreiðslu fjárhagsáætlunar).

Samþykkt 3:0

Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.

Samþykkt 3:0

14.Lóðir til úthlutunar 2024

2406278

Ákvörðun um úthlutunarfund.
Bæjarráð samþykkir að sérstakur úthlutunarfundur verði fimmtudaginn 26. september nk. kl. 15:00 en viðstaddur útdráttinn verður fulltrúi sýslumannsembættisins sem lögbókandi.
Alls bárust 19 umsóknir í 8 lóðir en umsóknarfrestur var til og með 5. september sl.

Samþykkt 3:0

15.Aðalfundur Samtaka orkusveitafélaga 2024

2409138

Aðalfundur Samtaka orkusveitafélaga 2024 verður haldinn þann 9. október nk. kl. 13:00 á Reykjavík Hilton Nordica.
Lagt fram.

16.Deiliskipulag Jaðarsbakkar og frumhönnun

2304154

Erindi/tillaga skipulags- og umhverfisráðs varðandi skipulagsvinnu Jaðarsbakka og lúkningu starfa starfshóps um skipulag Jaðarsbakka.
Bæjarráð samþykkir að starfshópurinn hætti störfum og að málið haldi áfram í hefðbundnu skipulagsferli hjá skipulags- og umhverfisráði.

Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.

Samþykkt 3:0

17.Hreyfivika ÍSÍ 2024

2409012

Erindi frá skóla og frístundaráði vegna hreyfiviku ÍSÍ 2024 þar sem óskað er eftir gjaldfrjálsum aðgangi að sundlauginni að Jaðarsbökkum vikuna 21. til 27. sepember nk. sem og að Guðlaugu og Bjarnalaug helgina 21. og 22. september nk.

Einnig hefur Fjölbrautarskólinn á Vesturlandi (FVA) óskað eftir gjaldfrjálsum aðgangi að sundlauginni að Jaðarsbökkum og tækjasal dagana 23. og 24. september nk. fyrir nemendur og starfsfólk FVA í tengslum við íþróttaviku skólans sem stendur yfir dagana 23. - 27. september nk.
Bæjarráð samþykkir erindin en áréttar mikilvægi þess að framkvæmdin verði unnin í náinni samvinnu við Daníel Glad Sigurðsson forstöðumann íþróttamannvirkja og íþróttamála Akraneskaupstaðar.

Samþykkt 3:0

18.Heilsuefling eldra fólks

2402299

Málið hefur verið til úrvinnslu hjá sviðsstjórum og fyrir liggja drög að endanlegum samningi, unnin í samvinnu fulltrúa Akraneskaupstaðar og ÍA.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samning Akraneskaupstaðar og Íþróttabandalags Akraness um heilsueflingu eldra fólks en um er að ræða tilraunaverkefni.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð vísar ákvörðuninni til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.

Samþykkt 3:0

19.Kaffisala á Byggðasafninu í Görðum

2409126

Byggðasafnið á Görðum - hugmyndavinna vegna kaffihúss.
Bæjarráð tekur jákvætt í málið og tekur undir bókun menningar- og safnanefndar frá 11. september 2024.

Samþykkt 3:0

20.Dalbraut 6 - leiguíbúðir fyrir aldraða

2004058

Upplýsingagjöf varðandi stöðu málsins.
Lagt fram.

Bæjarráð harmar þá stöðu sem er uppi í málinu sem er m.a. til úrvinnslu hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem stendur en kostnaður við mannvirkið hefur farið langt umfram samþykkt stofnframlög ríkis og sveitarfélags til umsækjanda verkefnisins.

Bæjarráð felur sviðsstjórum stjórnsýslu- og fjármálasviðs, velferðar- og mannréttindasviðs og skipulags- og umhverfissvið frekari úrvinnslu málsins.

Samþykkt 3:0

Fundi slitið - kl. 14:55.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00