Fara í efni  

Bæjarstjórn

1324. fundur 15. desember 2020 kl. 17:00 - 21:45 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
  • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
  • Elsa Lára Arnardóttir aðalmaður
  • Sandra Margrét Sigurjónsdóttir aðalmaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Bára Daðadóttir aðalmaður
  • Þórður Guðjónsson varamaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

1.Umbótavinna á rekstri og innra vinnulagi hjá Akraneskaupstað (stjórnsýsluúttekt)

2001210

Stjórnkerfisbreytingar hjá Akraneskaupstað hafa verið til meðferðar hjá embættismönnum og kjörnum fulltrúum síðastliðna mánuði.

Upphafið af þeirri vinnu má rekja til samþykktar bæjarráðs Akraness frá 27. febrúar sl. um að ráðast í umbótavinnu á rekstri og innra vinnulagi kaupstaðarins. Markmið þess verkefnis var að ná fram aukinni skilvirkni í starfsemi stjórnsýslu sveitarfélagsins með breytingum á stjórnun, verkferlum og samstarfi.

Meirihluti bæjarráðs samþykkti á fundi sínum þann 26. nóvember sl. nýtt skipurit ásamt greinargerð og tillögum um stjórnkerfisbreytingar.

Ákvörðuninni var vísað til málsmeðferðar í bæjarstjórn Akraness og gert ráð fyrir tveimur umræðum. Á fundi sínum þann 1. desember síðastliðinn vísaði bæjarstjórn stjórnkerfisbreytingunum í heild ásamt nýjum skipuritum Akraneskaupstaðar til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness.

Á milli umræðna hafa orðið breytingar á þeim tillögum sem hér eru lagðar fram en þær felast í því að meirihluti og minnihluti bæjarstjórnar munu halda samtali áfram á nýju ári varðandi þær breytingar sem snúa að skipulagsbreytingum á stjórnsýslu- og fjármálasviði og velferðar- og mannréttindasviði.
Til máls tóku:
ELA, EBr, RÓ, Þó, ELA, SMS sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Í nýlegri stjórnsýsluúttekt Capacent/Arcur á rekstri og innra vinnulagi Akraneskaupstaðar komu fram tillögur að skipulagsbreytingum sem voru lagðar fram, lítillega breyttar, til fyrri umræðu hér í bæjarstjórn þriðjudaginn 1. desember síðastliðinn. Á milli umræðna hefur farið fram samtal bæði í bæjarstjórn og í bæjarráði sem hefur leitt af sér ákveðnar málamiðlanir til þess að mæta að hluta sjónarmiðum bæjarfulltrúa minnihlutans. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir það samtal sem átti sér stað á milli umræðna og fyrir þær tilfæringar sem meirihlutinn var tilbúinn að gera á áður kynntum skipulagsbreytingum. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að með slíku samtali áður en skipuritsbreytingar voru kynntar starfsmönnum og íbúum hefði bæjarstjórn geta náð sameiginlegri lendingu varðandi skipuritsbreytingarnar en það er að sjálfsögðu flókið og erfitt að bakka með stöðuhækkanir og tilfæringar sem þegar hafa verið boðaðar opinberlega.

Það eru atriði í því skipulagi sem hér er lagt fram af meirihluta bæjarstjórnar sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru sammála um og styðja. Það eru jafnframt ákveðin atriði í nýju skipulagi sem endurspegla forgangsröðun sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisfokksins eru ekki sammála og geta ekki greitt þeim atkvæði sitt.

Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti að fara í fyrrgreinda úttekt með það að markmiði að draga fram, ef einhverjir væru, annmarka sem eru á þjónustu Akraneskaupstaðar við íbúa, fyrirtæki og stofnanir sveitafélagsins. Tillaga ráðgjafanna var að auka áherslu á verkefnamiðað skipulag, uppfæra verklag vegna skráninga í málaskrá og lúkningu mála, endurskoða verkferla til að auka samræmi og tryggja upplýsingaflæði, auka áherslu á að nútímavæða verkferla með hagnýtingu tækni, vinna með vinnustaðamenningu og þjónustuhugsun, nútímavæða vinnuaðstöðu starfsfólks og auka áherslu á stefnumótun og hagnýtingu gagna.

Það er mat bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að meirihluti þeirra tillagna sem ráðgjafarnir gera snúi að innra verklagi, bættum og nútímavæddum verkferlum, aðstöðu starfsfólks og menningu sem í sjálfu sér kalla ekki á skipuritsbreytingar. Skipulögð þverfagleg teymisvinna milli sviða er mikilvæg og á sér stað i ákveðnu mæli nú i dag. Þá teymisvinnu er hægt að efla og formgera án skipuritsbreytinga. Nútímavæðing verkferla og nýting á tækni kallar ekki á skipuritsbreytingu heldur felur í sér stjórnunarlegar áherslur. Nokkrir þættir kalla á ný stöðugildi og nýja þekkingu og taka fulltrúar Sjálfstæðisflokksins undir þær tillögur samanber nýtt stöðugildi mannauðsstjóra og nýtt stöðugildi skipulagsfulltrúa. Tillaga um bætt verklag í skjalastjórnun og nútímavæðingu verkferla er að tillögu meirihlutans leyst með tilfærslum á starfsmönnum og nýju stöðugildi skjalastjóra sem ætlað er að auka við fagþekkingu á sviði skjalamál. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja þá útfærslu.

Tillaga um nýja skrifstofu bæjarstjóra sem að mati bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er nýtt svið eins og það er sett fram í skipuritinu er ekki í samræmi við þær áherslubreytingar sem undirritaðir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja sjá á skipuriti Akraneskaupstaðar. Til að mæta ábendingu ráðgjafa um að auka áherslu á hagnýtingu gagna og til að mæta þeim áskorunum sem framundan eru í rekstri sveitarfélagsins og tryggja sjálfbærni í rekstri vildu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skerpa áherslu á fjármálastjórnun með því að leggja til nýtt svið fjármála í stjórnskipulagi kaupstaðarins þar sem sviðsstjóri fjármála sæti jafnframt á þverfaglegum fundum æðstu embættismanna bæjarins. Þær skipuritsbreytingar sem meirihlutinn leggur hér fram um að leggja niður starf fjármálastjóra og færa verkefnin á aðra starfsmenn inni á stjórnsýslu- og fjármálasviði og bæta þess í stað við nýrri stöðu innkaupastjóra með tilheyrandi nýjum verkefnum á sviðið gengur þvert á þá tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að skerpa á fjármálastjórnun í skipuriti kaupstaðarins.

Sá áherslumunur sem endurspeglast í ofangreindu ásamt því vinnulagi að tilkynna breytingar á skipuriti áður en bæjarstjórn tók afstöðu til þeirra gerir það að verkum að undirritaðir bæjarfulltrúar kjósa að sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Þórður Guðjónsson (sign)

Framhald umræðu:
ELA sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra:
Þann 27. febrúar s.l. var samþykkt í bæjarráði að fara af stað í umbótavinnu á rekstri og innra vinnulagi Akraneskaupstaðar. Markmið þessa var að ná fram aukinni skilvirkni í starfsemi stjórnsýslu sveitarfélagsins með breytingum á stjórnun, verkferlum og samstarfi. Ráðgjafar frá Capacent, síðar Arcur, unnu úttekt og skiluðu tillögum til bæjarstjórnar þar sem sérstaklega var horft til þess hvernig auka mætti þjónustu og skilvirkni í rekstri sveitarfélagsins með aukinni hagnýtingu upplýsingatækni, skýrari verkferlum, stjórnun og öflugu starfsumhverfi.

Niðurstaða ráðgjafa Capacent/Arcur er sú að núverandi skipurit sveitarfélagsins styðji ekki við nútímaleg vinnubrögð í stýringu verkefna, hagnýtingu rafrænnar þjónustu og skjalastýringu þannig að efla megi þjónustu við íbúa og fyrirtæki. Í skýrslu ráðgjafanna voru lagðar fram tillögur um tilteknar breytingar á uppbyggingu stjórnkerfis Akraneskaupstaðar. Frá þeim tíma hafa embættismenn bæjarins sem og pólitískir fulltrúar rýnt niðurstöðurnar.

Við undirrituð, bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra, erum þess fullviss að með þeim breytingum á stjórnkerfi og skipuriti Akraneskaupstaðar sem hér liggja fyrir, skapist möguleikar á því að auka fagmennsku og framleiðni í starfsemi kaupstaðarins, skýra forgangsröðun og stuðla að betri framgangi verkefna, auk þess að bæta þjónustu kaupstaðarins gagnvart stofnunum, fyrirtækjum og íbúum. Þótt aðgerðirnar feli í sér nýjar ráðningar, þá fela þær einnig í sér aðhaldsaðgerðir og teljum við þær vera hagkvæma ráðstöfun á skattfé íbúa á Akranesi. Þá eru breytingar eins og ráðning mannauðsstjóra og verkefnastjóra vegna snemmtækrar íhlutunar gerðar með það að markmiði að takast á við kostnað sem hefur safnast upp og draga úr kostnaði til lengri tíma.

Við þökkum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fyrir þeirra tillögur í málinu og fyrir gott og árangursríkt samtal á milli fyrstu og annarrar umræðu um málið. Því samtali verður haldið áfram á nýju ári, sérstaklega varðandi skipulagsbreytingar á stjórnsýslu- og fjármálasviði og á velferðar- og mannréttindasviði.

Við óskum bæjarstjóra og öðrum embættismönnum velfarnaðar við að hrinda þessum breytingum í framkvæmd og erum þess fullviss að þær muni heppnast vel og verða Akraneskaupstað og samfélaginu öllu til sóma.

Valgarður Lyngdal Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn Akraness samþykkir tillögur um stjórnkerfisbreytingar og breytt skipurit Akraneskaupstaðar sbr. meðfylgjandi greinargerð og með áorðnum breytingum sem orðið hafa á milli umræðna.

Samþykkt 5:0 , 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

Bæjarstjórn Akraness samþykkir jafnframt breytingar á Samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013 sbr. meðfylgandi gögn.

Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

2.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2021-2024

2010230

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar 2021-2024.
Forseti gerir tillögu um að mál nr. 2 og mál nr. 3 verði tekin til umræðu saman. Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar undir dagskrárlið nr. 3 en einnig fært sérstaklega til bókar atkvæðagreiðsla á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ársins 2021 undir lið nr. 2.

Ekki var hreyft við andmælum við tillögu forseta.

Bæjarstjórn samþykkir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2021 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2022 til og með 2024.

Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

3.Fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2022-2024

2009162

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 10. desember síðastliðinn að vísa fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2022 til og með 2024 ásamt tillögum sem meðfylgjandi eru áætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness.
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 1. desember síðastliðinn að vísa fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2022 til og með 2024 ásamt tillögum sem meðfylgjandi eru áætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness.

Til máls tóku:
RBS og SFÞ sem gerir grein fyrir helstu hagstærðum í áætluninni og breytingum sem orðið hafa á milli umræðna.

Framhald umræðu:
BD, ELA, KHS, RÓ, SMS, RÓ sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins settu fram sínar áherslur hvað varðar fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun á fundi bæjarráðs þann 16. nóvember sl. Áhersla var lögð á að svara kalli stjórnvalda og atvinnulífsins um aukið fé til uppbyggingar og framkvæmda m.a. með vinnuátakinu „Allir vinna“ að leiðarljósi.

Ásamt því að ráðast í ný verkefni leggja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikla áherslu á að klára þau verkefni sem nú þegar eru hafin eða undirbúningur á lokametrum. Eftirfarandi verkefnin voru lögð til grundvallar í tillögum Sjálfstæðisflokksins:
- Horft verði til framtíðar með nýtt húsnæði fyrir Fjöliðjuna, ljúka framkvæmdum 2023.
- Halda áfram uppbyggingu skólalóða við Grundaskóla og Brekkubæjarskóla á árinu 2021 og framlög til lóðanna verði samtals 50 milljónir á ári næstu fjögur ár.
- Ljúka uppbyggingu nýs leikskóla í Skógarhverfi 2022.
- Ljúka uppbyggingu þjónustumiðstöðvar að Dalbraut 2021.
- Ljúka byggingu fyrsta áfanga við Jaðarsbakka 2023.
- Verja nauðsynlegum fjármunum til nýframkvæmda í gatnagerð til að viðhalda eðlilegu lóðaframboði.
- Stuðla að lóðaframboði sem veitir verktökum möguleika á að byggja upp íbúðir sem falla undir hlutdeildarlán frá ríkinu og ýta þannig undir fjárfestingu ungs fólks á Akranesi.
- Fresta um óákveðin tíma uppbyggingu félagslegra íbúðaúrræða, mat á þörf fer fram í húsnæðisáætlun árlega sem nýta á til að ákvarða framboð á hverjum tíma. Í þessu samhengi er mikilvægt að selja eldri eignir þegar ný úrræði koma inn til að halda jafnvægi í framboði eins og lagt var af stað með þegar samþykkt var að leggja stofnframlag inn í Íbúðafélagið Bjarg. Þau áform hafa ekki gengið eftir og úrræðum því fjölgað umtalsvert.
- Halda uppi áformum um þjónustuíbúðir fyrir fatlaða.
- Akraneskaupstaður selji þær fasteignir sem ekki eru að sinna lögbundinni og / eða grunnþjónustu sveitarfélagsins. Slík aðgerð hefur bein áhrif til lækkunar á viðhaldsþörf og skýrari fókus skapast í forgangsröðun viðhaldsverkefna.

Markmið bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins eru skýr og er ánægjulegt að sjá flestar þessara tillagna í þeirri fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun sem lög er fram til samþykktar í dag.

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar ber þess merki að mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstri bæjarfélagsins. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði hefur farið úr rúmum 600 m.kr. í plús á árinu 2018 og stefnir í tæpar 600 m.kr. í mínus á árinu 2020 samkvæmt útkomuspá. Bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar og Framsókn og frjálsra er tíðrætt um áhrif Covid-19 á rekstrarárið 2020. Vissulega hefur heimsfaraldurinn haft áhrif á bæjarsjóð en þær tölur þarf að rýna mun betur og sjá raunveruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.

Á þessu kjörtímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn bent á að launakostnaður Akraneskaupstaðar sem hlutfall af tekjum sé hár borið saman við sambærileg sveitarfélög. Þá sýnir sú rekstraráætlun sem lögð er fram til samþykktar í dag að vandinn fer vaxandi og því nauðsynlegt að grípa nú þegar til aðgerða til að stemma stigu við þeim kostnað sem ekki er studdur með vexti í tekjum.

Skipulagsbreytingar sem samþykktar voru í dag af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra munu auka enn frekar við launakostnað kaupstaðarins án þess að þess sjáist merki í áætlun til þriggja ára að breytingarnar leiði ekki af sér mikla hagræðingu eða verulega bætta rekstrarafkomu. Markmiðið með þeirri úttekt var að auka skilvirkni í verkferlum, ræða vinnustað framtíðarinnar, kanna tækifæri í upplýsingatækni og nútímavæða verkferla. Ekki var sérstaklega horft til þess að ná fram hagræðingu í þessari stjórnsýslu úttekt sem rímar við fyrirliggjandi tillögur frá meirihlutanum í bæjarstjórn.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins binda þá miklar vonir til þess að ráðning mannauðsstjóra muni auka við sérþekkingu á sviði mannauðsmála, bæta verkferla og að innleidd verði verkfæri sem hjálpa stjórnendum að draga úr veikindafjarvistum sem hafa farið vaxandi undanfarin ár hjá Akraneskaupstað. Rýna þarf veikindafjarvistir starfsmanna, finna rót vandans og vinna með markvissum hætti að bættri líðan og velfarnaði starfsmanna hjá kaupstaðnum. Það er áhyggjuefni að veikindafjarvistir séu mörgum prósentustigum hærri en hjá samanburðar sveitarfélögum og öðrum opinberum stofnunum hér á landi.

Á tímum sem þessum eru allar hagræðingarákvarðanir erfiðar en það er hlutverk kjörinna fulltrúa að standa vörð um bæjarsjóð, en um leið að horfa til forgangsröðun framkvæmda og standa vörð um grunnþjónustu með hag bæjarbúa að leiðarljósi til lengri framtíðar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins studdu þá hagræðingarkröfu sem farið var af stað með í fjárhagsáætlunarvinnunni en niðurstaða bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra var að draga hana til baka að mestu leyti.

Það er von undirritaðra bæjarfulltrúa að bæjarstjórn öll sé nú tilbúin að taka höndum saman og mæta þeim verkefnum sem fram undan eru með það að markmiði að bæjarsjóður verði sjálfbær og gott betur.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Þórður Guðjónsson (sign)

Framhald umræðu:
ELA, forseti óskar eftir að EBr, varaforseti, leysi sig af þar sem hann óski eftir að taka til máls.

EBr tekur við stjórn fundarins.

Framhald umræðu:
VLJ sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra:
Meirihluti bæjarstjórnar, bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra samþykkja framlagða fjárhagsáætlun ársins 2021 og þriggja ára áætlun 2022 - 2024.

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar einkennist af ábyrgri fjármálastjórn og traustum rekstri en vegna aðstæðna sem m.a. má rekja til heimsfaraldurs kórónaveiru þá þarf að gæta aðhalds í rekstri. Áhrif heimsfaraldurs á samstæðu Akraneskaupstaðar eru rúmar 506 milljónir króna og þau má að mestu rekja til viðspyrnuaðgerða sem öll bæjarstjórn samþykkti á vormánuðum og til tekjubreytinga sem felast í lækkun á útsvarstekjum og lækkun á þjónustutekjum. Bæjarfulltrúar samþykktu auk þessa 200 milljón króna viðbót í fjárfestingar en sú samþykkt var hluti af viðspyrnuaðgerðum bæjarstjórnar. Áhrif heimsfaraldurs til lækkunar á handbæru fé samstæðu Akraneskaupstaðar er því rúmar 706 milljónir á árinu sem nú er að líða.

Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A-hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um 154 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð samtals um 113 milljónir króna.

Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram er lögð fram á sérstökum tímum og er viðbragð við þeim samfélagslegu áhrifum sem heimsfaraldur kórónaveirunnar hefur haft í för með sér. Áhersla er lögð á að verja grunnþjónustu í samfélaginu okkar og bregðast við því álagi sem orðið hefur á velferðar- og mannréttindasviði á árinu. Að mati meirihluta bæjarstjórnar er nauðsynlegt að bregðast við núna, sjá síðan hvernig málin þróast og taka síðan samtalið áfram um það hver framtíðarsýn meiri- og minnihluta bæjarstjórnar er í þessum mikilvægu málum.

Hér birtist því skýr framtíðarsýn sem snýst um að verja grunnstoðir samfélagsins en sýna um leið ábyrga fjármálastjórn. Sú áhersla sést vel í þeirri þriggja ára áætlun sem hér er lögð fram og birtist m.a. í sterkari stöðu bæjarsjóð á komandi árum og í því að afborganir langtímalána munu fara lækkandi frá og með árinu 2024. Það eru því áfram tækifæri til stórfelldrar uppbygginga innviða hér á Akranesi til framtíðar.

Í fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun þeirri sem hér er lögð fram birtist þessi sýn. Á næsta ári mun uppbygging Þjónustumiðstöðvar við Dalbraut klárast, framkvæmdir við nýjan leikskóla munu hefjast, lokahönnun á Jaðarsbökkum mun klárast og framkvæmdir fara í gang. Framkvæmdir við uppbyggingu Fjöliðjunnar munu fara af stað, uppbygging mun halda áfram á Dalbrautarreit, gatnagerð í Skógarhverfi þriðja áfanga mun fara af stað, framkvæmdir halda áfram við skólalóð Brekkubæjarskóla og hefjast við skólalóð Grundaskóla.

Bæjarfulltrúar meirihlutans þakka bæjarfulltrúum minnihlutans fyrir gott samstarf í ráðum og nefndum við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2021 og þriggja ára áætlunar 2022 - 2024.

Jafnframt þakka þau bæjarstjóra, endurskoðanda og embættismönnum bæjarins fyrir afar gott samstarf og þeirra mikla vinnuframlag við þessa fjárhagsáætlunargerð sem hér er lögð fram.

Með von um áframhaldandi gott samstarf á árinu 2021.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)

Framhald umræðu:
VLJ tekur á ný við stjórn fundarins

Ekki frekari umræða og gengið til atkvæðagreiðslu.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögur:

1. Álagning gjalda 2021.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að eftirfarandi forsendur verði lagðar til grundvallar álagningu útsvars, fasteignagjalda og lóðaleigu á árinu 2021:
a. Álagt útsvar verði 14,52% vegna launa ársins 2021.
Samþykkt 9:0

b. Álagningarprósentur vegna fasteignaskatts breytast frá fyrra ári (2012) og verða eftirfarandi á árinu 2021:

i. 0,2514% af álagningastofni íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum erfðafestulanda og jarðeigna skv. a-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan var 0,2407% árið 2020).
Samþykkt 9:0

ii. 1,3200% af öllum fasteignum skv. b-lið 3. greinar laga laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan er lögbundin og óbreytt á milli áranna 2020 og 2021).
Samþykkt 9:0

iii. 1,400% af öllum öðrum fasteignum skv. c-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan óbreytt á milli áranna 2020 og 2021).
Samþykkt 9:0

c. Sorphreinsunargjald verði kr. 19.256 fyrir hverja íbúð miðað við tvær sorptunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp). Sorpeyðingargjald vegna íbúðarhúsnæðis verði kr. 16.422 miðað við tvær tunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp).
Gjöldin verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0

d. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verði 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða (óbreytt á milli áranna 2020 og 2021) og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða (óbreytt á milli áranna 2020 og 2021) og verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0

e. Lóðarleiga af eldri lóðum (samningar dagsettir fyrir 1. janúar 2004) sem lögð er á hvern fermetra (m2) lóðar tekur viðmið af breytingum sem verða á byggingarvísitölu.
Samþykkt 9:0

f. Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2021 verði 15. janúar, 15. febrúar, 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. september og 15. október en eindagi gjaldanna verði 30 dögum síðar eða næsta virkan dag beri hann upp á helgidag.

Heildargjöld sem nema lægri fjárhæð en kr. 25.000 innheimtast með einum gjalddaga á ári, þann 15. apríl 2021.
Samþykkt 9:0

g. Veitt verði ívilnun á fasteignaskatti á árinu 2021, til elli- og örorkulífeyrisþega í samræmi við sérstakar reglur bæjarstjórnar um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
Samþykkt 9:0

2. Þjónustugjaldskrár 2021.
Samkvæmt samþykktum bæjarstjórnar Akraness hækka þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar 1. janúar ár hvert í samræmi við áætlaða hækkun vísitölu neysluverðs samkvæmt forsendum fjárhagsáætlunar sem byggir á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 1. júní síðastliðnum. Heimilt er með sérstækri ákvörðun að víkja frá hinni almennu hækkun.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að almennar þjónustugjaldskrár taki almennt breytingum samkvæmt tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga til sveitarfélaga landsins um að væntanlegar gjaldskrárhækkanir taki mið af forsendum lífskjarasamningum aðila almenna vinnumarkaðarins sem undirritaður var 3. apríl 2019.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar hækki um 2,5% þann 1. janúar 2021 nema annað sé sérstaklega tilgreint í viðkomandi gjaldskrá.

Með vísan til framangreinds samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi gjaldskrár vegna ársins 2021:

1. Gjaldskrá leikskóla (einstaka liðir taka meiri hækkun en sem nemur 2,5%)
Samþykkt 9:0

2. Gjaldskrá vegna skólamáltíða (einstaka liðir taka meiri hækkun en sem nemur 2,5%)
Samþykkt 9:0

3. Gjaldskrá frístundar (einstaka liðir taka meiri hækkun en sem nemur 2,5%)
Samþykkt 9:0

4. Gjaldskrá dagstarfs (einstaka liðir taka meiri hækkun en sem nemur 2,5%)
Samþykkt 9:0

5. Gjaldskrá Tónlistarskóla Akraness (einstaka liðir taka meiri hækkun en sem nemur 2,5%)
Samþykkt 9:0

6. Gjaldskrá íþróttamannvirkja (einstaka liðir taka meiri hækkun en sem nemur 2,5%)
Samþykkt 9:0

7. Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu og heimsendingu matar (einstaka liðir taka meiri hækkun en sem nemur 2,5%)
Samþykkt 9:0

8. Gjaldskrá Bókasafns Akraness (hækkun um 2,5%)
Samþykkt 9:0

9. Gjaldskrá Héraðsskjalasafns Akraness (hækkun um 2,5%)
Samþykkt 9:0

10. Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness (hækkun um 2,5%)
Samþykkt 9:0

11. Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum (hækkun um 2,5%)
Samþykkt 9:0

12. Gjaldskrá um hundahald á Akranesi (hækkun um 2,5%)
Samþykkt 9:0

13. Gjaldskrá um kattahald á Akranesi (hækkun um 2,5%)
Samþykkt9:0

14. Gjaldskrá Akranesvita (einstaka liðir taka meiri hækkun en sem nemur 2,5%)
Samþykkt 9:0

15. Gjaldskrá Tjaldsvæðisins á Akranesi (sértæk ákvörðun í samvinnu við þjónustuveitanda)
Samþykkt 9:0

16. Gjaldskrá vegna sorphirðu og sorpeyðingar á Akranesi (hækkun um 2,5%)
Samþykkt 9:0


3. Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2021.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 1.817 m.kr. vegna ýmissa fjárfestinga og framkvæmda á árinu 2021 en þar af eru um 600 m.kr. vegna verkefna sem færast frá árinu 2020 yfir á árið 2021. Við framsetningu fjárhæðarinnar hefur verið tekið tilliti til tekna. Stærstu verkefnin sem færast á milli ára eru uppbygging Fjöliðjunnar, hönnun við Jaðarsbakka og bygging nýs leikskóla.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

Helstu einstöku þættir fjárfestinga eru eftirfarandi:
a. Nýframkvæmdir í gatnagerð og göngustígum m.a. á Langasandsreit, Flóahverfi, Faxabraut og Skógarhverfi ásamt viðhald gatna í eldri hverfum og göngustígum, samtals 246 m.kr. að teknu tilliti frádráttar vegna tekna (gatnagerðargjöld). Einnig samtals 6,0 m.kr. í umferðaröryggi.

b. Endurskipulag grunnskólalóða Akraneskaupstaðar og bætt útisvæði þeirra, samtals 37,5 m.kr. ásamt sérstökum aðgerðum á ákveðum leikskólalóðum um bætt svæði yngri barna, samtals 7,5 m.kr.

c. Fasteignir, stærri verkefni, samtals að fjárhæð 397,1 m.kr. Helstu verkefnin eru endurbygging Fjöliðjunnar, áframhaldandi viðhald og endurbætur við Brekkubæjarskóla, breytingar á Þekjunni hjá Fimleikahúsinu og innanhúsframkvæmdir þjónustumiðstöðvar aldraða við Dalbraut.

d. Fasteignafélag Akraneskaupstaðar, samtals að fjárhæð 1.031 m.kr. að teknu tilliti frádráttar vegna endurgreiðslu virðisauka. Stærstu einstöku verkefnin eru bygging nýs leikskóla í Skógarhverfi og fyrsti áfangi í uppbyggingu Jaðarsbakka. Einnig er hér gert ráð fyrir stofnframlögum vegna Þjóðbraut 3-5 og annarra uppbyggingar, samtals 113,6 m.kr.

e. Uppbygging nýrra svæða, samtals að fjárhæð um 10 m.kr. en um er að ræða framkvæmdir á svonefndum Dalbrautarreit.

f. Aðrar framkvæmdir og kaup á stofnbúnaði, samtals að fjárhæð um 10 m.kr. Helstu verkefni eru endurnýjun búnaðar fyrir Slökkviliðið.


4. Almennt og sérgreint viðhald fasteigna 2021.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 166,1 m.kr. til almenns og sérgreinds viðhalds í Aðalsjóði, Eignasjóði, Byggðasafninu og í Fasteignafélagi Akraneskaupstaðar slf. á árinu 2021.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

5. Útgjöld vegna starfsemi á skóla- og frístundasviði Akraneskaupstaðar
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 3.765 m.kr. króna vegna starfsemi á skóla- og frístundasviði á árinu 2021 sbr. yfirlit um skiptingu á milli málaflokka.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

6. Útgjöld vegna starfsemi á velferðar- og mannréttindasviði Akraneskaupstaðar
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 1.202 m.kr. króna vegna starfsemi á velferðar- og mannréttindasviði á árinu 2021 sbr. yfirlit um skiptingu á milli málaflokka.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

7. Útgjöld vegna starfsemi á skipulags- og umhverfissviði Akraneskaupstaðar
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 579 m.kr. vegna starfsemi á skipulags- og umhverfissviði á árinu 2021 sbr. yfirlit um skiptingu á milli málaflokka.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

8.Útgjöld vegna starfsemi sviði menningarmála hjá Akraneskaupstað
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 233 m.kr. vegna menningarstarfsemi á árinu 2021 sbr. yfirlit um skiptingu á milli málaflokka.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

9. Útgjöld vegna starfsemi á sviði atvinnu- og ferðamála hjá Akraneskaupstað
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 32 m.kr. vegna starfsemi á sviði atvinnu- og ferðamála á árinu 2021 sbr. yfirlit um skiptingu á milli málaflokka.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

10.Útgjöld vegna sameiginlegs kostnaðar hjá Akraneskaupstað
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 953 m.kr. vegna sameiginlegs kostnaðar á árinu 2021 sbr. yfirlit um skiptingu á milli málaflokka.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

11. Stjórnmálasamtök á Akranesi 2021.




Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir með vísan til 5. gr. laga nr. 162/2006 að ráðstafa 1,0 m.kr. til starfsemi stjórnmálaflokka á Akranesi.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar vegna ársins 2021 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2022-2024, ásamt tillögum.

Fjárhagsáætlun 2021 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu samstæðu A- og B- hluta Akraneskaupstaðar að fjárhæð um 113 m.kr. og að handbært fé í árslok verði um 937 m.kr.
Samþykkt 5:0, 4 sitja hjá (RÓ/SMS/EBr/ÞG)

4.Deiliskipulag Dalbrautarreits - Dalbraut 6

2008220

Forkynning á breytingu deiliskipulagsins var tilkynnt í bréfi þann 16. október sl. til íbúa vestan megin Dalbrautar. Ennfremur voru drög að skipulagsbreytingunni auglýst og kynnt til 13. nóvember 2020. Ein athugasemd barst.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði auglýst skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Til máls tóku:
RBS, EBr, RÓ, RBS, SMS, RBS og EBr.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að tillaga að breytingu á deiliskipulagi Dalbrautarreits Dalbraut 6, verði auglýst skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt 7:0, 2 sitja hjá (RÓ/EBr)

5.Bátaskemma á svæði Byggðasafnsins í Görðum

1805238

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 4. desember sl. breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2020 vegna beiðni forstöðumanns menningar- og safnamála um tilfærslu fjárheimilda milli deilda.

Ráðstöfuninni er mætt með hækkun rekstrarafgangs sem nemur kr. 7.000.000 en einnig samsvarandi hækkun á fjárfestingu og hefur því breytingin ekki áhrif á handbært fé.

Bæjarráð samþykkti viðauka nr. 34 og vísar honum til endanlegrar málsmeðferðar hjá bæjarstjórn Akraness.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir viðauka nr. 34 en honum er mætt með hækkun rekstrarafgangs sem nemur kr. 7.000.000, samsvarandi hækkun á fjárfestingu og hefur því ekki áhrif á stöðu hanbærs fjár.

Samþykkt 9:0

6.Samningur um samstarf slökkviliðs Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar - Uppsögn / endurskoðun

1912291

Samþykkt bæjarráðs um framlengingu fyrirliggjandi samstarfssamnings sveitarfélaganna með áorðnum breytingum um rekstur Slökkviliðs Akraness til eins ár, til ársloka 2021.

Fyrir liggur einnig jákvæð afgreiðsla sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 8. desember síðstliðnum um framlengingu samstarfssamningsins með áorðnum breytingum.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir framlengingu fyrirliggjandi samstarfssamnings sveitarfélaganna með áorðnum breytingum um rekstur Slökkviliðs Akraness til eins ár, til ársloka 2021.

Bæjarstjórn Akraness felur bæjarstjóra áframhaldandi vinnu málsins með það að markmið að endurskoðun til framtíðar verði lokið á árinu 2021.

Samþykkt 9:0

7.Fundargerðir 2020 - Bæjarráð

2001002

3441. fundargerð bæjarráðs frá 4. desember 2020.
3442. fundargerð bæjarráðs frá 7. desember 2020.
3443. fundargerð bæjarráðs frá 10. desember 2020.
Til máls tóku:
ELA sem þakkar bæjarfulltrúum fyrir samstarfið á árinu og nýtir tækifærið til að óska bæjarfulltrúum sem og bæjarbúum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

8.Fundargerðir 2020 - Skóla- og frístundaráð

2001004

149. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 7. desember 2020.
150. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 8. desember 2020.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

9.Fundargerðir 2020 - Skipulags- og umhverfisráð

2001005

181. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 30. nóvember 2020.
182. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 7. desember 2020.
Til máls tóku:
EBr um fundargerð nr. 181, dagskrárlið nr. 2.
EBr um fundargerð nr. 182, dagskrárlið nr. 2.
RBS um fundargerð nr. 181, dagskrárlið nr. 2.
RBS um fundargerð nr. 182, dagskrárlið nr. 2.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

10.Fundargerðir 2020 - Velferðar- og mannréttindaráð

2001003

141. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 1. desember 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerðir 2020 - SSV

2001008

156. fundargerð stjórnar SSV frá 30. september 2020.
157. fundargerð stjórnar SSV frá 15. október 2020.
Fundargerð haustþings SSV frá 16. október 2020 ásamt ályktunum frá haustþingi SSV um samgöngumál, opinbera þjónustu og atvinnumál.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

12.Fundargerðir 2020 - Faxaflóahafna

2001014

200. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna frá 26. nóvember 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

13.Fundargerðir 2020 - Sorpurðun Vesturlands

2005282

Fundargerð stjórnar Sorpurðunar Vesturlands frá 14. september 2020.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Forseti óskar bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra sem og öllum bæjarbúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Forseti þakkar bæjarfulltrúum fyrir samstarfið á árinu 2020 og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.

Næsti fundur bæjarstjórnar Akraness verður þriðjudaginn 12. janúar 2021.

Fundi slitið - kl. 21:45.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00