Akraneskaupstaður tilbúinn í viðræður um móttöku flóttamanna
Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum í gærkveldi, 8. september að lýsa yfir vilja til að hefja viðræður við Velferðarráðuneytið um aðkomu sveitarfélagsins að móttöku flóttafólks frá Sýrlandi. Á fundinum var bæjarstjóra falið að upplýsa ráðuneytið um vilja sveitarfélagsins. Akraneskaupstaður hefur talsverða reynslu af móttöku flóttamanna en fyrir nákvæmlega 7 árum síðan, 8 september árið 2008 tók kaupstaðurinn á móti 29 palestínskum flóttamönnum frá Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri segir að bærinn vilji gjarnan miðla reynslu sinni af verkefninu og að bæjaryfirvöld telji það samfélagslega skyldu Íslendinga að axla ábyrgð í þeim erfiðu aðstæðum sem milljónir Sýrlendinga búa við núna. Bæjaryfirvöld geri sér grein fyrir að móttaka flóttamanna krefjist vandaðs undirbúnings og eftirfylgni og hafi komið þeirri skoðun á framfæri opinberlega.