Fara í efni  

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um stórfellda uppbyggingu samgöngukerfisins með álagningu flýtigjalda

Á fundi bæjarstjórnar Akraness þann 11. desember var svohljóðandi bókun lögð fram og samþykkt einróma:

„Bæjarstjórn Akraness fagnar þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur á Alþingi Íslendinga til stórfelldra samgöngubóta sem fyrirhugaðar eru á næstu árum og verða fjármagnaðar með álagningu flýtigjalda. Akurnesingar hafa verið í fararbroddi í þessari hugsun á Íslandi í yfir 20 ár eins og bygging og rekstur Hvalfjarðarganga eru góður vitnisburður um. Bæjarstjórn Akraness vill minna á að hjá starfsfólki Spalar á Akranesi, sem annaðist daglegan rekstur Hvalfjarðarganga, hefur myndast mikil þekking á gjaldtöku af notkun samgöngumannvirkja og vill bæjarstjórn Akraness hvetja Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til þess að nýta þessa yfirgripsmiklu þekkingu starfsfólks Spalar við undirbúning og ákvörðun um staðsetningu og umsýslu með innheimtu flýtigjalda á Íslandi.“

Ályktunin hefur verið send samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og þingmönnum Norðvesturkjördæmis.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00